spot_img
HomeFréttirÖrvar: Geng stoltur frá borði

Örvar: Geng stoltur frá borði

Stjórn KKD Fjölnis ákvað í gær að segja upp samningi sínum við Örvar Þór Kristjánsson en lið Fjölnis missti naumlega af úrslitakeppninni í ár eftir harða baráttu við Njarðvíkinga. Örvar stýrði liðinu í tvö ár en hann tók við af Tómasi Holton í upphafi tímabilsins 2010-2011. Karfan.is sló á þráðinn til Örvars og átti stutt spjall við kappann.
 
Nú er tíma þínum hjá Fjölni lokið, var þetta eitthvað sem kom þér á óvart?
Þetta er bara partur af þessum bransa og kom svo sem ekkert rosalega á óvart en eigi að síður er það svekkjandi að fá ekki að klára þriðja árið. Við settum okkur skýr markmið fyrir tímabilið og þau náðust ekki því miður, þjálfarinn verður að axla ábyrgð á því.  Ég er eigi að síður nokkuð sáttur með árangurinn í vetur að mörgu leyti miðað við aðstæður en vissulega var það afar súrt að ná ekki inn í úrslitakeppnina. Stjórnin verður að taka ákvarðanir og hún nýtti sér ákvæði í samningnum um að segja honum upp, ég virði þá ákvörðun þeirra og skil við félagið í góðu. Þetta er klisja en ég geng stoltur frá borði og hlakka til að fylgjast með þessum drengjum í framtíðinni enda mikill efniviður þarna á ferð.
 
En ertu heilt yfir sáttur við þennan tíma þinn hjá Fjölni?
Já ég er mjög sáttur með þennan tíma og hann var fyrst og fremst ótrúlega skemmtilegur og lærdómsríkur.  Þeir leikmenn sem ég hef unnið með eru miklir snillingar og það var létt yfir þessu hjá okkur enda tel ég það mikilvægt að menn njóti þess til hins ítrasta að spila körfubolta.  Ég er ákaflega stoltur af þessum strákum og þarna eru leikmenn sem ég veit að eiga eftir að ná mjög langt í íþróttinni.  Helstu vonbrigðin eru auðvitað sú að hafa ekki náð inn í úrslitakeppnina með þessa drengi en á móti þá tel ég að þessi reynsla eigi eftir að herða þá og nýtast þeim þegar á líður enda flestir ungir að árum og eiga framtíðina fyrir sér.  Fyrir mig var þetta svo ómetanleg reynsla, ég hef þroskast sem þjálfari og bætt mig þó svo vissulega maður geti alltaf gert betur.  Var allan tímann trúr minni sannfæringu og vona að mín vinna eigi eftir að koma Fjölni til góða í nánustu framtíð. Verð að taka það skýrt fram að ég er Steinari Davíðssyni formanni körfuknattleiksdeildar Fjölnis afar þakklátur fyrir tækifærið, þetta er gull af manni og svona snillingur er ofarlega á jólakortalistanum.
 
Hvað með framhaldið?
Næstu dagar verða nýttir til þess að slappa af enda er búið að vera gríðarlega erfiður en jafnframt skemmtilegur vetur.  Það er nú bara þannig að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og það er aldrei að vita hvað maður tekur sér fyrir hendur næst. Bíð eftir símtalinu frá Pálma þjálfara Skallagríms enda veit hann að þar eru örugg 20 stig á (heima)leik næsta vetur En ætli maður verði ekki duglegur að kíkja á leikina í úrslitakeppninni enda taumlaus skemmtun þar á ferð.  Að lokum vil ég þakka öllu því góða fólki sem vann með mér hjá Fjölni fyrir samstarfið, þetta er flott félag sem á framtíðina fyrir sér.
 
Fréttir
- Auglýsing -