spot_img
HomeFréttirÍR framlengir ekki við Gunnar

ÍR framlengir ekki við Gunnar

Gunnar Sverrisson er annar þjálfarinn í úrvalsdeild karla sem nú er án þjálfarastóls en Körfuknattleiksdeild ÍR hefur ákveðið að framlengja ekki samningi sínum við Gunnar. Þetta staðfesti Gunnar við Karfan.is rétt í þessu þegar við slóum á þráðinn.
,,Samningurinn var búinn og stjórn ákvað að framlengja ekki. Það er engin lygi að mig langar til þess að þjálfa en vissulega voru það vonbrigði að ná ekki inn í úrslitakeppnina. Ég óska ÍR alls hins besta en ég hef verið þar félagsmaður síðan árið 1979. Ég skil sáttur enda hef ég gert margt eins og t.d. að tengja saman yngri flokkana og meistaraflokkinn og sinna félagsstarfinu," sagði Gunnar við Karfan.is í morgun.
 
Undir stjórn Gunnars hafnaði ÍR í 9. sæti deildarinnar með 16 stig og missti naumlega af úrslitakeppninni þetta tímabilið.
 
Í yfirlýsingu frá stjórn KKD ÍR segir:
Stjórn körfuknattleiksdeildar ÍR hefur ákveðið að Gunnar Sverrisson muni ekki koma til með að þjálfa meistaraflokk ÍR á næstkomandi tímabili. Gunnar er ÍR-ingur góður og hefur unnið afar gott og óeigingjarnt starf fyrir ÍR undanfarin ár og óskar KKD ÍR honum velfarnaðar í öllu því sem hann mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni.

Körfuknattleiksdeild ÍR

 
  
Fréttir
- Auglýsing -