spot_img
HomeBikarkeppniHaukar vörðu VÍS bikartitilinn með sigri á Breiðablik í Smáranum

Haukar vörðu VÍS bikartitilinn með sigri á Breiðablik í Smáranum

Haukar lögðu Breiðablik í úrslitaleik VÍS bikarkeppni kvenna í kvöld í Smáranum81-88.

Fyrir leik

Bæði liðin unnu undanúrslitaviðureignir sínar nokkuð örugglega síðastliðinn fimmtudag 17. mars. Breiðablik hafði betur gegn Snæfell og Haukar báru sigurorð af Njarðvík.

Gangur leiks

Breiðablik heldur betri aðilinn á uphafsmínútum leiksins. Anna Soffía Lárusdóttir gjörsamlega sjóðandi fyrir utan þriggja stiga línuna fyrir þær í fyrsta leikhlutanum, sem endar 26-21 þeim í vil. Í öðrum leikhlutanum ná Haukar í nokkur góð stopp og er leikurinn í járnum undir lok hálfleiksins. Allt jafnt þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 40-40.

Stigahæst í liði Blika í fyrri hálfleiknum var Michaela Lynn Kelly með 11 stig á meðan að fyrir Hauka var það Eva Margrét Kristjánsdóttir sem dró vagninn með 10 stigum.

Leikurinn er áfram æsispennandi í upphafi seinni hálfleiksins. Blikar ná þó að vera körfu á undan Haukum lungann úr þriðja fjórðungnum, en þegar hann er á enda er ennþá allt jafnt, 63-63. Hægt og rólega ná Haukar að sigla framúr Blikum í fjórða leikhlutanum og eru komnar 7 stigum yfir þegar tæpar 4 mínútur eru eftir af leiknum, 71-78. Undir lokin má svo segja að Haukar hafi siglt þessu heim með stórum þristum frá Helenu Sverrisdóttur og Bríeti Sif Hinriksdóttur. Breiðablik krafsar aðeins í bakkann á lokaskúndunum, en aldrei þannig að þær geri raunverulega atlögu að sigrinum. Lokastaðan 81-88 fyrir Hauka.

Tölfræðin lýgur ekki

Haukar gjörsamlega slátruðu frákastabaráttu leiksins. Tóku 52 fráköst á móti aðeins 34 fráköstum Breiðabliks.

Atkvæðamestar

Helena Sverrisdóttir var atkvæðamest í liði Hauka í dag með 19 stig, 15 fráköst og 9 stoðsendingar. Þá bætti Eva Margrét Kristjánsdóttir við 16 stigum og 7 fráköstum.

Fyrir Breiðablik var Michaela Kelly atkvæðamest með 27 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar. Henni næst var Anna Soffía Lárusdóttir með 22 stig og 2 stoðsendingar.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Márus Björgvin)

Breiðablik: Michaela Lynn Kelly 27/6 fráköst/7 stoðsendingar, Anna Soffía Lárusdóttir 22, Telma Lind Ásgeirsdóttir 16/5 fráköst, Birgit Ósk Snorradóttir 6/4 fráköst, Isabella Ósk Sigurðardóttir 6/12 fráköst, Eyrún Ósk Alfreðsdóttir 4, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir 0, Elin Lara Reynisdottir 0, Anna Lóa Óskarsdóttir 0, Selma Pedersen Kjartansdóttir 0, Guðrún Heiða Hjaltadóttir 0, Selma Guðmundsdóttir 0.


Haukar: Helena Sverrisdóttir 19/15 fráköst/9 stoðsendingar, Eva Margrét Kristjánsdóttir 16/7 fráköst, Sólrún Inga Gísladóttir 13, Elísabeth Ýr Ægisdóttir 11/8 fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 9, Bríet Sif Hinriksdóttir 8, Lovísa Björt Henningsdóttir 7/8 fráköst, Jana Falsdóttir 5, María Ósk Vilhjálmsdóttir 0, Agnes Jónudóttir 0, Heiður Hallgrímsdóttir 0.

Fréttir
- Auglýsing -