spot_img
HomeFréttirÞórsmaskínan valtaði aftur yfir KR

Þórsmaskínan valtaði aftur yfir KR

Þór Þorlákshöfn burstaði KR í kvöld 86-100 í DHL-Höllinni og tóku 2-1 forystu í einvíginu. Gestirnir tóku frumkvæðið snemma og litu aldrei um öxl. Þórsarar urðu í leik tvö fyrstu nýliðarnir til að vinna leik í undanúrslitum, í kvöld urðu þeir svo fyrstir til að vinna tvo leiki og með hverjum sigrinum rita þeir nýja blaðsíðu í annað bindi bókarinnar ,,Leikni framar líkamsburðum" sem vonandi kemur einhvern tíma út. Darrin Govens og Darri Hilmarsson fóru fyrir Þór í kvöld, aðrir léku ljómandi vel en hjá KR skoraði Josh Brown mest en sé rýnt í tölurnar hans að frátalinni vítahittninni (13 af 13) þá tók hann alltof mikið til sín. Martin Hermannsson og Jón Orri Kristjánsson fá klapp á bakið fyrir fína baráttu, aðrir röndóttir þurfa að gyrða í brók.
Heimamenn í KR freistuðu þess að keyra upp hraðann í byrjun leiks en það gaf ekki sem skyldi, Govens með þrist, Guðmundur fylgdi í kjölfarið og ekki löngu síðar tók Hrafn leikhlé fyrir KR í stöðunni 4-13 fyrir Þór. Óskabyrjun hjá gestunum sem léku magnaða vörn en heimamenn fundu þó nokkrar glufur og staðan 15-23 fyrir Þór að loknum fyrsta leikhluta. Blagoj Janev var með sjö stig hjá Þór eftir fyrsta leikhluta en þeir Finnur, Brown og Hreggviður voru allir með fjögur stig hjá KR þar sem Hreggviður kom ferskur inn af bekknum og var strax ógnandi.
 
Þór opnaði annan leikhluta 4-0 og komust í 21-35 þegar KR-ingar tóku leikhlé. Rob Ferguson fékk skömmu síðar sína þriðju villu í liði KR en hann komst lítið í takt við leikinn í fyrri hálfleik. Darri Hilmarsson fór mikinn fyrir Þór í fyrri hálfleik, vinnslan á manninum er með ólíkindum á báðum endum vallarins! Down Town Brown átti svo lokaorðið fyrir KR í fyrri hálfleik með flautuþrist sem var nærri miðju en þriggja stiga línunni og liðin gengu til búningsherbergja í stöðunni 40-50 Þór í vil. Heimamenn í KR að fá á sig 50 stig í hálfleik á heimavelli, sjaldgæf sjón það.
 
Brown var með 16 stig og 3 stoðsendingar hjá KR í hálfleik en Darrin Govens 13 stig og 8 fráköst hjá Þór, ekki amalegt hjá leikstjórnandanum. Það var þó Darri Hilmarsson sem bar af í fyrri hálfleik með 9 stig og 4 fráköst og almenn dólgslæti á báðum endum vallarins og ljóst að kappinn er að finna sig afar vel gegn uppeldisfélaginu þessa seríuna.
 
Skotnýting liðanna í fyrri hálfleik
KR: Tveggja 37,9%, þriggja 33,3% og víti 92,3%
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 59%, þriggja 33,3% og víti 64,2%
 
KR-ingar opnuðu þriðja leikhluta 4-0 en misstu síðar Rob Ferguson af velli með fimm villur. Darrin Govens hélt uppteknum hætti með glimrandi leik, tveir þristar frá kappanum breyttu stöðunni í 46-59 fyrir Þór. Leikhlutinn var þó engu að síður nokkuð jafn á stigum, þ.e.a.s. Þór vann leikhlutann 26-30 þar sem mikið var skorað og þessi leikhluti bauð upp á sísta varnarleikinn í leiknum. Þór leiddi því 66-80 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og ekkert sem benti til þess að KR væri að herða róðurinn, liðsmenn röndóttra einfaldlega andlausir á parketinu ef frá er talinn Martin Hermannsson. Brown var að erfiða, takandi erfið skot og nýtingin hrapaði enda var hann 6 af 15 í teignum eftir 30 mínútna leik. 
 
Baldur Þór Ragnarsson átti lipra spretti með Þór í kvöld, hann gerði fyrstu stig Þórs í fjórða en fékk skömmu síðar sína fimmtu villu og var ekki einn um það en alls fimm leikmenn fengu fimm villur í kvöld, mikið flautað og hart barist.
 
KR minnkaði muninn í 10 stig, 72-82 en þá tók Guðmundur Jónsson til sinna ráða, þristur og svo karfa í teignum, 5 stig í röð frá Guðmundi og alls 7-0 demba frá Þór og staðan 72-89. Þarna kláraðist leikurinn og rúmar fimm mínútur eftir af leiktímanum. KR átti sér ekki viðreisnar von og þurfa nú að halda í Þorlákshöfn og vinna til að knýja fram oddaleik í DHL-Höllinni.
 
Í kvöld var það svo viðeigandi að Darri Hilmarsson skyldi gera síðustu stig leiksins úr þriggja stiga körfu, 86-100 og gestirnir með Græna drekann í broddi fylkingar fögnuðu innilega í leikslok.
 
Þórsarar létu rigna í kvöld, skutu 28 þristum og 11 rötuðu rétta leið á meðan 3 af 16 fóru niður hjá KR. Grænir voru með 43% þriggja stiga nýtingu í leik tvö og 39,2% í kvöld og reyndar 41% nýtingu í leik eitt. Að sama skapi hefur þriggja stiga nýting KR hrapað frá fyrsta leik úr 30% í 26% og svo í kvöld í 18,7%.
 
Fjórði leikur liðanna fer svo fram í Þorlákshöfn miðvikudaginn 18. apríl næstkomandi.
 
Heildarskor:
 
KR: Joshua Brown 34/5 fráköst, Dejan Sencanski 13/7 fráköst, Hreggviður Magnússon 11/4 fráköst, Finnur Atli Magnusson 11/14 fráköst/4 varin skot, Jón Orri Kristjánsson 6/4 fráköst, Martin Hermannsson 5, Emil Þór Jóhannsson 4, Robert Lavon Ferguson 2/4 fráköst, Kristófer Acox 0, Páll Fannar Helgason 0, Skarphéðinn Freyr Ingason 0, Ágúst Angantýsson 0.
 
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens 29/13 fráköst/9 stoðsendingar, Blagoj Janev 18, Guðmundur Jónsson 16, Darri Hilmarsson 14/9 fráköst, Joseph Henley 12/6 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 6, Grétar Ingi Erlendsson 4, Þorsteinn Már Ragnarsson 1, Vilhjálmur Atli Björnsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Emil Karel Einarsson 0.
 
Skotnýting liðanna í leiknum:
KR: Tveggja 42,3%, þriggja 18,7% og víti 96,4%
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 57,8%, þriggja 39,2% og víti 67,6%
 
Dómarar leiksins: Rögnvaldur Hreiðarsson og Einar Þór Skarphéðinsson
 
Umfjöllun og mynd/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -