spot_img
HomeFréttirU18 kk Ísland 94-59 Danmörk: Sterk byrjun hjá 18 ára liðinu

U18 kk Ísland 94-59 Danmörk: Sterk byrjun hjá 18 ára liðinu

Íslenska U18 ára landsliðið leikur nú gegn Dönum en þetta er fyrsti leikur liðsins á Norðurlandamótinu þetta árið. Hér að neðan er bein textalýsing af leiknum og þá má einnig nálgast beina tölfræðilýsingu á leiknum á tölfræðivef KKÍ.
 
Textalýsing: Ísland-Danmörk U18 karla
 
 
 
– Sterkur sigur hjá íslenska liðinu í dag. Áttu smá erfitt með að halda tempóinu sínu í öðrum leikhluta en náðu aftur takti og kláruðu leikinn af öryggi. Þetta U18 ára lið, þ.e.a.s. þessir leikmenn hafa verið þekktir fyrir að leika þétta og góða svæðisvörn á Norðurlandamótinu en mættu með góða maður á mann vörn gegn Dönum og léku hana frá upphafi til enda.
 
 
– Stigahæstu menn Íslands í leiknum:
Martin Hermannsson 23 stig og 2 stoðsendingar
Maciej Baginski 18 stig og 2 fráköst
Valur Orri Valsson 17 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar
Dagur Kár Jónsson 14 stig og 2 fráköst
Stefán Karel Torfason 6 stig og 6 fráköst
 
– Maður leiksins: Valur Orri Valsson með 17 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.
 
– Leik lokið og lokatölur 94-59 Íslandi í vil.
 
– 3.00mín eftir af fjórða: 90-56 fyrir Ísland. Nokkuð róleg yfir leiknum hér í fjórða leikhluta. Dagur Kár Jónsson er með lipra spretti og Jens Valgeir er að finna sig betur og betur í leik liðsins. Heilt yfir mjög sterk frammistaða hjá okkar strákum í kvöld og ljóst að þeir ætla sér að verða illir viðureignar á mótinu.
 
– 5.30mín eftir af fjórða: 86-52 fyrir Ísland
 
– Valur Orri að skora og fá villu að auki, staðan 81-50 þegar tvær mínútur eru liðnar af fjórða leikhluta. Valur hefur leikið glimrandi vel síðustu mínútur. Allt íslenska byrjunarliðið er komið á bekkinn og þessum leik var lokið fyrir nokkru síðan, aðeins spurning um lokatölur héðan í frá.
__________________________________________________________________________________________
– Þriðja leikhluta lokið og Valur Orri átti fína spretti hér í lokin og lokaði þriðja með flautukörfu í teignum. Staðan 76-44 Ísland í vil, strákarnir unnu leikhlutann 28-16. Valur þriðji leikmaður íslenska liðsins til að rjúfa 10 stiga múrinn og kominn í 12 stig.
 
– Danir búnir að sulla niður tveimur þristum með skömmu millibili og staðan 71-41
 
– 3.20mín eftir af þriðja: 67-38 fyrir Ísland og alveg ljóst í hvað stefnir. Martin Hermannsson kominn með 23 stig og Maciej Baginski 18. 
 
– Stefán Karel Torfason var hér að haltra af velli, virðist hafa misstigið sig lítillega en Gunnlaugur Már Briem sjúkraþjálfari liðsins veitir honum nú aðhlynningu. Norðlenska nautið lætur ekkert á sig bíta.
 
– 4.25mín eftir af þriðja: 61-34 fyrir Ísland sem hafa fyrstu fimm mínúturnar í þriðja leikhluta skorað 15-6 á Dani.
 
– Hvert hraðaupphlaupið rekur nú annað hjá íslenska liðinu og vörnin er aftur orðin til fyrirmyndar. Martin enda við að gefa stoðsendingu á Maciej sem skellti niður þrist og staðan 58-31 þegar sex mínútur eru eftir af þriðja leikhluta.
 
– 7.15mín eftir af þriðja: Elvar Már að skella niður þrist fyrir íslenska liðið og staðan 53-31. Okkar menn mun grimmari núna en í öðrum leikhluta.
 
– Danir opna síðari hálfleik með þriggja stiga körfu og minnka muninn í 46-31.
 
– Síðari hálfleikur er hafinn og byrjunarliðið er mætt á völlinn. Sjáum hvort þeir nái ekki að hrista aðeins af sér slenið úr öðrum leikhluta og reyna að líkjast sér aðeins úr þeim fyrsta.
___________________________________________________________________________________________
– Martin Hermannsson er með 16 stig í hálfleik, Maciej Baginski 9 og Stefán Karel Torfason er með 6 stig og 5 fráköst.
 
– Skotnýting Íslands í hálfleik:
Tveggja 65,3%, þriggja 40% og víti 66,6%
 
– Hálfleikur og staðan 46-28 fyrir Ísland. Okkar menn fremur klaufalegir hér síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik. Danir sýndu mun betri leik í öðrum leikhluta en Ísland vann leikhlutann 18-16.
 
– 2.05mín eftir af öðrum: 45-24 fyrir Ísland. Martin Hermannsson að smella niður stökkskoti fyrir Ísland, fyrstu stigin eftir næstum þriggja mínútna þurrð. Martin kominn í 15 stig.
 
– 3.26mín eftir af öðrum: 43-24 fyrir Ísland og Danir á 8-0 áhlaupi svo Einar Árni tekur leikhlé fyrir íslenska liðið.
 
– 5.00mín eftir af öðrum: 43-16 fyrir Ísland…frændur vorir Danir fá engin grið hjá okkar mönnum. Valur Orri hefur verið lunkinn síðustu mínútur við að hrinda hraðaupphlaupunum í gang og íslenska liðið sækir grimmt á körfuna og lætur ekki plata sig í þriggja stiga skotin þrátt fyrir svæðisvörn Dana.
 
– 6.05mín eftir af öðrum: 38-16 fyrir Ísland og Danir taka leikhlé. Martin Hermannsson hefur verið beittur síðustu mínútur og er kominn með 11 stig í íslenska liðinu.
 
– 33-14 fyrir Ísland og Danir eru farnir að leika svæðisvörn, spila 2-3 svæði og íslenska liðið nú í tvígang búið að grýta frá sér boltanum gegn svæðinu.
 
– Valur Orri Valsson opnar annan leikhluta með þriggja stiga körfu og staðan 31-12 fyrir Ísland og Danir mega fara að vakna ef þeir ætla sér ekki að tapa þessum stórt.
__________________________________________________________________________________________
– Fyrsta leikhluta lokið og staðan 28-12 fyrir Ísland
. Drengirnir hafa farið mikinn í þessum fyrsta leikhluta og spila fantagóða vörn. Maciej kominn með 9 stig og Martin Hermannsson 6.
 
– Einar og Arnar búnir að nota níu leikmenn þennan fyrsta leikhluta.
 
– 2.00mín eftir af fyrsta: 25-10 eftir troðslu frá tröllinu að norða, Stefán Karel Torfason með góð tilþrif en íslenska liðið er að keyra vel í bakið á Dönum sem einnig eiga erfitt uppdráttar gegn sterkri vörn Íslands.
 
– 3.20mín eftir af fyrsta: 19-10 fyrir Ísland og vörnin í góðu formi. 
 
– 5.27mín eftir af fyrsta: Maciej Baginski skorar og fær villu að auki fyrir íslenska liðið. Danir taka leikhlé fyrir vikið og staðan 14-6 okkar mönnum í vil. 
 
– 6.05mín eftir af fyrsta: 12-6 fyrir Ísland. Fín byrjun hjá strákunum sem virðast í góðum gír. Karelarnir Stefán og Emil voru að bjóða upp á ,,alley-up" í hraðaupphlaupi. Skemmtileg tilþrif.
 
– Danir gera fyrstu stig leiksins eftir sóknarfrákast en Martin Hermannsson er fljótur að koma Íslendingum á blað. 
 
– Ísland byrjar leikinn í maður á mann vörn.
 
– Leikur hafinn og Danir vinna uppkastið
___________________________________________________________________________________________
– Byrjunarlið Íslands:
Elvar Már Friðriksson, Martin Hermannsson, Maciej Baginski, Emil Karel Einarsson og Stefán Karel Torfason.
 
– Á meðal áhorfenda á leiknum eru Logi Gunnarsson landsliðsmaður, Jón Kr. Gíslason fyrrum leikmaður og þjálfari Keflavíkur og íslenska landsliðsins, Valur Snjólfur Ingimundarson og ekki má gleyma hr. Borgarnesi, Finni Jónssyni aðstoðarþjálfara U16 ára landsliðs kvenna.
 
– Einhverjar smávægilegar tafir á því að leikurinn geti hafist en það ætti að gerast fljótlega.
 
– Einar Árni Jóhannsson og Arnar Guðjónsson eru þjálfarar liðsins.
 
– Nú eru um fimm mínútur þangað til leikurinn hefst og liðin eru að gera sig klár í þjóðsöngvana.
 
 
Valur Orri hefur næmt auga fyrir opnum mönnum og var með 3 stoðsendingar í fyrri hálfleik. 
Emil Karel Einarsson sækir að körfu Dana í fyrri hálfleik 
 
Fréttir
- Auglýsing -