spot_img
HomeFréttirStrákarnir í 16 ára liðinu kvöddu með sigri

Strákarnir í 16 ára liðinu kvöddu með sigri

Íslenska U16 ára lið karla hefur lokið keppni á Norðurlandamótinu í Svíþjóð en strákarnir kvöddu með sigri eftir þrjá tapleiki í röð þar á undan. Ísland lagði Dani 66-58 eftir að hafa leitt allan leikinn. Högni Fjalarsson var atkvæðamestur í íslenska liðinu í dag með 12 stig og 2 fráköst.
 
(Nettengingin í Solnahallen var að svíkja okkur í dag, þessvegna fer hér að neðan umfjöllun um leikinn en ekki lifandi textalýsing eins og verið hefur til þessa á mótinu.)
Daði Lár Jónsson gerði fyrstu stig Íslands í leiknum með sterku gegnumbroti en Íslendingar hófu leikinn í svæðisvörn með töluvert breyttu byrjunarliði frá því í gær. Pétur Rúnar Birgisson var á bekknum hjá íslenska liðinu en hann hlaut slæmt högg á læri í gær og var því ekki með liðinu í dag.
 
Íslenska liðið lék svæðisvörn en í sókninni var Daði Lár beittur framan af og gerði 6 af 8 fyrstu stigum liðsins og kom Íslandi í 8-5. Danir jöfnuðu metin í 13-13 en íslenska liðinu gekk vel að prjóna sig í gegnum dönsku vörnina. Að sama skapi var ekki kominn neinn taktur í varnarleik okkar manna.
 
Þegar leið á fyrsta leikhluta óx Íslandi ásmegin með þá Kára og Daða Lár Jónssyni fremsta í flokki og tók liðið 23-17 forystu eftir fyrstu tíu mínúturnar. Kunnuglegt stef hjá U16 ára liðinu, góður fyrsti leikhluti og stóra spurningin því sú hvort liðið gæti haldið dampi út leikinn.
 
Gunnar Ingi Harðarson opnaði annan leikhluta fyrir íslenska liðið með þriggja stiga körfu og staðan orðin 27-17 fyrir Ísland en Danir bitu í skjaldarrendur og minnkuðu muninn í 27-24 með 7-0 áhlaupi. Grindvíkingurinn Hilmir Kristjánsson sleit Ísland frá að nýju með þriggja stiga körfu og staðan 32-26, liðin gengu svo til búningsklefa í stöðunni 35-31 Íslandi í vil.
 
Högni Fjalarsson var atkvæðamestur hjá Íslandi í fyrri hálfleik með 10 stig og næstur honum var Daði Lár Jónsson með 8 stig.
 
Skotnýting Íslands í hálfleik:
Tveggja 54,5%, þriggja 22,2% og víti 71,4%
 
Danir mættu af krafti inn í síðari hálfleik og voru fljótir að jafna metin í 38-38. Íslenska liðið fór á köflum kæruleysislega með boltann en Högni Fjalarsson var lunkinn við að setja niður opnu skotin sín og eitt slíkt kom Íslandi í 47-41 og eftir það var ekki aftur snúið. Ísland leiddi 49-42 að loknum þriðja leikhluta og í þeim fjórða átti bilið bara eftir að aukast.
 
Með góðu áframhaldi í fjórða leikhluta komst Ísland í 65-46 þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka og danski björninn var allur. Danir náðu þó að minnka muninn og lokatölur reyndust 66-58 fyrir Ísland með 1-12 lokaspretti Dana. Sigurinn var þó aldrei í hættu og íslensku strákarnir fögnuðu innilega.
 
Danir munu leika til úrslita á mótinu en riðlakeppnin hjá 16 ára strákunum var hnífjöfn og súrt í broti fyrir okkar menn að hafa lokið keppni enda með lið sem hefði vel getað látið betur að sér kveða. Það kemur bara næst!
 
Högni Fjalarsson var stigahæstur með 12 stig og 2 fráköst.
Daði Lár Jónsson 10 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar
Kári Jónsson 8 stig, 5 fráköst, 2 stoðsendingar
Atli Þórsson 8 stig og 4 fráköst
 
 
 
Byrjunarlið Íslands
Kári Jónsson, Daði Lár Jónsson, Kristinn Pálsson, Vilhjálmur Kári Jensson og Högni Fjalarsson.  
Fréttir
- Auglýsing -