spot_img
HomeFréttirRán í Vasalund - Danir gáfust aldrei upp og hirtu bronsið

Rán í Vasalund – Danir gáfust aldrei upp og hirtu bronsið

Þrátt fyrir að leiða leikinn í rúmar 35 mínútur dugði það ekki til því Danir áttu magnaðan lokasprett gegn U18 ára landsliði Íslands í bronsleiknum á NM og höfðu 56-59 sigur eftir æsispennandi lokasprett. Hildur Björg Kjartansdóttir fór fyrir íslenska liðinu í dag með 18 stig og 14 fráköst og þá bætti Hallveig Jónsdóttir við 11 stigum. Norðurlandamótinu í Svíþjóð er því lokið og árangurinn sá að U18 ára karlaliðið vann til silfurverðlauna, kvennaliðin 16 og 18 ára höfnuðu í 4. sæti og 16 ára lið karla hafnaði í 5. sæti.
Hallveig Jónsdóttir skoraði fyrstu stig leiksins fyrir Íslands hönd eftir fínt hraðaupphlaup og íslenski hópurinn mætti ákveðinn til leiks, fín og góð læti á bekknum og stemmningin eins og best verður á kosið í íslenska hópnum.
 
Ísland komst í 5-0 á fyrstu fimm mínútum leiksin áður en Danir tóku leikhlé en þær dönsku hittu afar illa gegn 1-3-1 svæðisvörn Íslands sem var vel stemmd og þétt. Það kom þó að því að lokum að Danir náðu að gera stig og minnkuðu þeir muninn í 7-2 eftir fimm og hálfa mínútu í fyrsta leikhluta. Ísland leiddi svo 15-9 að loknum fyrsta leikhluta þar sem vörnin var skruggu fín og Hildur Björg Kjartansdóttir eitruð með 8 af 15 fyrstu stigum Íslands í leiknum.
 
Ef varnir liðanna voru fínar í fyrsta leikhluta þá skánuðu þær í öðrum því Ísland vann leikhlutann 9-7 og leiddi 24-16 í hálfleik. Marín Laufey Davíðsdóttir gerði fyrstu stig Íslands í öðrum leikhluta eftir um þriggja mínútna leik og breytti stöðunni í 17-11. Bæði lið voru töluvert mistæk í fyrri hálfleik en bilið jókst að nýju þegar Margrét Rósa setti þrist og kom Íslandi í 24-16 þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks en þetta reyndust síðustu stigin í fyrri hálfleik.
 
Hildur Björg Kjartansdóttir fór mikinn í íslenska liðinu í fyrri hálfleik með 10 stig og 9 fráköst og Margrét Rósa var með 6 stig, 3 stolna bolta og 2 fráköst.
 
Skotnýting Íslands í hálfleik:
Tveggja 17,6%, þriggja 10% og víti 83,3%
 
Ekkert var skorað fyrstu tvær mínúturnar í þriðja leikhluta uns Hallveig Jónsdóttir skellti niður íslenskum þrist og breytti stöðunni í 27-16. Þegar hér var komið við sögu hafði verið stigalaust í leiknum síðustu þrjár í fyrri hálfleik og fyrstu tvær í þeim síðari, fimm stigalausar mínútur. Adam var þó ekki lengi í paradís því Danir svöruðu þristinum hennar Hallveigar í sömu mynt og minnkuðu muninn í 27-19.
 
Hallveig hélt áfram að hrella Dani í leikhlutanum og fjögur stig í röð frá henni komu Íslandi í 39-29. Ísland leiddi 42-33 að loknum þriðja leikhluta og unnu leikhlutann 18-14.
 
Lovísa Falsdóttir opnaði fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 45-33 Íslandi í vil en Ísland gerði fyrstu fimm stig leikhlutans. Danir vöknuðu við þetta og hófu að éta upp íslenska forskotið, þristur frá þeim dönsku minnkaði muninn í 49-43 og annar kom þeim yfir 58-59 þegar fjórar mínútur voru til leiksloka og æsispennandi lokasprettur framundan.
 
Seiglan í Dönum skilaði þeim þremur risavöxnum sóknarfráköstum eina sóknina þegar um mínúta var til leiksloka og svo fór að lokum að þær skoruðu og komust í 51-55. Þær héngu á þessum mun uns leikurinn var úti og fögnuðu innilega í leikslok þessum seiglusigri.
 
Stigahæstu leikmenn Íslands:
Hildur Björg Kjartansdóttir 18 stig og 14 fráköst
Hallveig Jónsdóttir 13 stig
Margrét Rósa Hálfdánardóttir 11 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar
Lovísa Falsdóttir 8 stig
 
Byrjunarlið Íslands:
Margrét Rósa Hálfdánardóttir, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Andrea Björt Ólafsdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir.
 
 
Mynd/ [email protected] – Hallveig Jónsdóttir sækir að dönsku körfunni í bronsleiknum í dag.  
Fréttir
- Auglýsing -