spot_img
HomeFréttirFlake verður með silfurliði Þórs á næstu leiktíð

Flake verður með silfurliði Þórs á næstu leiktíð

Darrell Flake mun leika með silfurliði Þórs úr Þorlákshöfn á næstu leiktíð en þetta staðfesti Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórsara við Karfan.is í dag. Flake lék með Skallagrím í 1. deild karla á síðustu leiktíð og fór með liðinu upp í úrvalsdeild eftir sigur á ÍA í úrslitum 1. deildarinnar. Þá er ljóst að bæði Darri Hilmarsson og Guðmundur Jónsson verða áfram á mála hjá Þór.
,,Það varð ljóst um daginn að við gátum ekki fengið Blagoj Janev aftur með nýju reglunum sem voru samþykktar þannig að maður þurfti að líta í kringum sig með íslenskan ,,inside" mann. Ég hef þjálfað Flake áður og hef þekkt hann lengi og fínt að fá hann í þetta verk. Flake þekkir íslenska teiginn í flestum íþróttahúsum landsins og vart til sá teigur hér sem hann er ekki búinn að ,,húkka" að minnsta kosti tvisvar eða þrisvar sinnum," sagði Benedikt þegar Karfan.is ræddi við hann í dag.
 
Flake gerði 18,6 stig, tók 11,8 fráköst og gaf 3,9 stoðsendingar í 1. deildinni í fyrra en kappinn er nýorðinn 32 ára gamall.
 
Mynd/ Sigga Leifs: Flake í leik með Skallagrím

  
Fréttir
- Auglýsing -