spot_img
HomeFréttirStefán Karel í Snæfell - Kom til að lemja á stóra bróður

Stefán Karel í Snæfell – Kom til að lemja á stóra bróður

Hlaupið hefur á snærið hjá Snæfell en miðherji U18 ára landsliðs Íslands, Stefán Karel Torfason, hefur nú söðlað um og sagt skilið við Akureyri um hríð og gengið til liðs við Hólmara. Karfan.is ræddi við Stefán í kvöld sem kvaðst vera kominn í Hólminn til að berja vel á stóra bróður sem væri orðinn helst til of mjúkur.
,,Ég er mjög spenntur fyrir því að spila með þeim bestu," sagði Stefán sem lék í 1. deild á síðustu leiktíð með Þór Akureyri. ,,Ég heyrði í nokkrum öðrum liðum en taldi Stykkishólm vera besta kostinn fyrir mig, bæði af persónulegum- og körfuboltalegum ástæðum. Ég kom tvisvar hingað í vetur að kynna mér aðstæður og fannst það mjög spennandi að spila með Óla bróður, Nonna Mæju, Pálma og fleirum. Hér er líka flott samfélag og Stykkishólmur yndislegur bær."
 
Ólafur Torfason er stóri bróðir Stefáns sem ætlar að láta þann eldri finna vel til tevatnsins. ,,Ég kom til að lemja á stóra bróður, hann var orðinn svo mjúkur eitthvað karlinn. En svona í fullri alvöru þá hvetjum við hvorn annan áfram," sagði Stefán en þeir bræður hafa vakið athygli síðsutu tímabil fyrir að leika í bleikum skóm, verður það í gangi á næstu leiktíð?
 
,,Það er ekki planið, bæði pörin okkar eru ónýt enda voru þetta bölvaðir sýningargripir," sagði Stefán en Nike hefur gefið út bleika körfuboltaskó til styrktar baráttunni gegn brjóstakrabbameini kvenna. ,,Það er þó aldrei að vita nema maður taki einn eða fleiri leiki í bleiku skónum þó þeir séu orðnir svona tæpir," sagði Stefán sem þegar er mættur í Hólminn að gera sig kláran fyrir næstu leiktíð.
 
,,Hólmurinn heillar svo það var ekkert sem hélt aftur af því að mæta á svæðið núna."
 
  
Fréttir
- Auglýsing -