Snæfell hefur nú fengið höfnun í tvígang frá aga- og úrskurðarnefnd KKÍ en málið sem um ræðir er úrslitaleikur Snæfells og Keflavíkur á Íslandsmótinu í unglingaflokki kvenna á nýafstöðnu tímabili. Í venjulegum leiktíma tókst Keflavík að jafna og knýja fram framlengingu sem síðar leiddi til sigurs Keflvíkinga. Í venjulegum leiktíma var deilt um lögmæti körfunnar þar sem annar dómari leiksins studdist við myndbandsupptöku til að skera úr um lögmæti hennar. Hólmarar voru aldrei sammála niðurstöðu dómara en það kom í hlut Eggerts Þórs Aðalsteinssonar, annars dómara leiksins, að skoða myndbandið og dæma um lögmæti körfunnar.
Karfan.is setti sig í samband við Inga Þór Steinþórsson þjálfara Snæfells sem segir kærurnar engar stríðsyfirlýsingar enda græði enginn neitt á slíku en vill að hlutirnir séu sanngjarnir.
Af hverju ákvað Snæfell að kæra?
Þegar að við loks fengum upptöku af leiknum, horfðum við að sjálfsögðu á lokasekúndurnar 2.94. Um leið og við sáum þetta fengum við sömu tilfinningu og í leiknum sem var að leiktíminn var útrunnin. Við fengum óháða aðila til að mæla þetta fyrir okkur og setja á myndband með mælingum. Þar voru rammarnir mældir en hver sekúnda þar eru 22 rammar. Atvikið var 3.06 sem þýðir að rauntímin var 3.31 sekúnda. Við skiljum að dómarar sem þurfa að taka ákvörðun á staðnum geti auðveldlega gert mistök, en dómari sem tekur sér 20 mínútur að skoða málið geri svona afdrífa mistök er ekki hægt að líða.
Okkur fannst undarlegt að annar dómari leiksins hafi tekið þessa ákvörðun á meðan hinn dómarinn stóð niðri á gólfi. Sá sem var niðri á gólfi hafði gefið merki um að tíminn væri útrunnin, en dómarinn sem fór upp ætlaði að dæma körfu góða. Og stórfurðulegt að hann hafi ekki fullvissað sig með því að taka tímann á skeiðklukku til að vera viss. Við erum búinn að taka tímann allt að 100 sinnum og þá er styðsti tíminn 3.31 sekúnda sem er nær 0.5 sekúndum of langur tími. Stelpunum finnst lífið vera gríðarlega ósanngjarnt og þess vegna vildum við sjá hvað hægt væri að gera í stöðunni.
Hvaða niðurstöðu vildi Snæfell fá í málið?
Við vissum sögunnar vegna að ekki er hægt að kæra mistök dómara og við viljum ekki að það verði svoleiðis, það er bara partur af leiknum, en mistökin sem í þessu tilviki voru gerð komu eftir að hafa notast við upptöku. Mat dómara á atvikinu eftir upptökunni var klárlega rangt og hafa 99% af því fólki sem séð hafa atvikið verið sammála því. Við vildum að réttlætið yrði sett fram og réttir sigurvegarar krýndir.
Eru Hólmarar ósáttir við vinnubrögð aga- og úrskurðarnefndar í málinu, ef svo í hverju felst sú óánægja?
Nei, aga og úrskurðarnefndin vinnur eftir sínum reglum, eina sem er að seinni kæran var í um þrjár vikur eða svo hjá þeim, en með því að kæra dómaranefnd og mótanefnd sem virtist vera það eina rétta eftir samtöl við ýmsa í hreyfingunni þá voru það ekki réttir aðilar til að kæra, kærunni vísað frá og mælst til þess að við myndum kæra Keflavík. En Keflavík gerði ekkert rangt, þær gerðu það sem öll lið hefðu reynt, að skora á þeim tíma sem eftir var. En niðurstaða nefndarinnar var að ekki voru réttir aðilar kærðir og því báðum kærum vísað frá, sem sagt ekki hægt að kæra þessi mistök sem voru greinilega gerð. Málið er snúið og enginn veit neitt. Þetta mál er fordæmisgefandi, þar sem dómari tekur ákvörðun eftir myndbandi og hún er alröng. Eiga dómarar ekki að notast við upptöku til að fá rétta ákvörðun af því að þeir voru ekki 100% vissir á sinni ákvörðun, ég hélt það.
Þetta er annar úrslitaleikurinn í röð sem Snæfell tapar gegn Keflavík í unglingaflokki kvenna á vafasömu atriði. Í fyrra hlupu Keflvíkingar inn á völlinn áður en leiktíminn rann út, í ár telur Snæfell að jöfnunarkarfan í venjulegum leiktíma hafi ekki verið skoruð löglega. Eggert dæmir báða þessa leiki, eruð þið að segja manninum stríð á hendur?
Nei, það græðir enginn á neinu stríði. Við erum auðvitað ekki sátt við framkvæmdina, en það eina sem við viljum er að hlutirnir séu sanngjarnir og að rétt skal vera rétt.
Hver er næstu skref hjá ykkur, ætlið þið að una þessum úrskurði eða fara með málið lengra?
Það er ekkert hægt að gera frekar í þessu máli, við viljum að allir sjái hvað sé rétt í þessu máli.
Myndband af körfunni umdeildu, Snæfell hefur sett tímamælingu á þetta myndband