Haukar lögðu Njarðvík í kvöld í seinni undanúrslitaleik VÍS bikarkeppni kvenna, 57-83. Njarðvík er því úr leik, en Haukar mæta Breiðablik komandi laugardag 19. mars í Smáranum í úrslitaleik keppninnar.
Fyrir leik
Liðin á nokkuð sviðuðum stað í deildinni, Haukar í 3. sætinu með 28 stig á meðan að Njarðvík er sæti neðar með 26 stig. Gengi þeirra síðustu vikur þó verið nokkuð ólíkt, Haukar unnið fimm í röð á meðan að Njarðvík hafa tapað síðustu fjórum deildarleikjum sínum.
Liðin mættust í tvígang í Subway deildinni í lok febrúar. Njarðvík hafði 8 stiga sigur í fyrri leiknum, 70-78, á meðan að Haukar unnu þann seinni 57-86.
Gangur leiks
Leikurinn er í miklu jafnvægi á upphafsmínútunum þar sem að liðin skiptast í nokkur skipti á að hafa forystuna. Undir lok fyrsta leikhlutans ná Haukar að komast skrefinu á undan og eru 4 stigum yfir fyrir annan fjórðung, 17-21. Mikið áhyggjuefni fyrir Njarðvík að Lavína Silva, sem hafði verið frábær fyrir þær í byrjun leiks, fékk sína þriðju villu í lok fyrsta fjórðungs. Leikurinn er svo áfram nokkuð jafn og spennandi í öðrum leikhlutanum. Þangað til undir lokin þegar að Haukar ná að byggja sér upp smá forystu með tveimur þristum í röð frá Helenu Sverrisdóttur og einum flautuþrist frá Tinnu Guðrúnu Alexandersdóttur. Munurinn 11 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-45.
Stigahæst í liði Njarðvíkur í fyrri hálfleiknum var Diane Diéné með 13 stig á meðan að Lovísa Björt Henningsdóttir var komin með 13 stig fyrir Hauka.
Haukar hanga á forystu sinni í upphafi seinni hálfleiksins þrátt fyrir álitlegar tilraunir Njarðvíkur til að minnka muninn. Nokkur skakkaföll sem lið Hauka verður fyrir í þriðja leikhlutanum, þar sem Keira Robinson fer lítillega meidd af velli og Helena Sveridóttir liggur eftir höfuðhögg undir lok fjórðungsins. Með herkjum halda Haukar 11 stiga forystu sinni inn í lokaleikhlutann, 47-58.
Í byrjun fjórða leikhlutans láta Haukar svo kné fylgja kviði og eru komnar 16 stigum yfir þegar tæpar 7 mínútur eru eftir af leiknum. Enn ganga Haukar á lagið eftir það og eru komnar 25 stigum yfir þegar tæpar 4 mínútur eru eftir. Eftirleikurinn að er virtist nokkuð auðveldur fyrir ríkjandi bikarmeistarana, sem tryggja sig að lokum örugglega áfram í bikarúrslitaleikinn, 57-83.
Tölfræðin lýgur ekki
Haukar skutu boltanum mun betur en Njarðvík í leiknum. Settu niður 32 af 70 á vellinum, 45%, á móti aðeins 22 af 73 , 30%, hjá Njarðvík.
Atkvæðamestar
Fyrir Njarðvík var Diane Diéné atkvæðamest með 20 stig og 9 fráköst. Þá bætti Aliyah Collier við 15 stigum og 13 fráköstum.
Fyrir Hauka var það Lovísa Björt Henningsdóttir sem dró vagninn með 24 stigum, 7 fráköstum og Keira Robinson henni næst með 13 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar.
Hvað svo?
Úrslitaleikur keppninnar er komandi laugardag 19. mars í Smáranum, en þar munu Haukar mæta Breiðablik.
Myndasafn (Márus Björgvin)