Hrafn Kristjánsson verður ekki með KR á næstu leiktíð eins og þegar hefur komið fram og nú velta því margir fyrir sér hver muni taka við skútunni. Mun KR ráða sér erlendan þjálfara? Er það of dýrt? Hver verður næsti ,,skipper"?
Finnur Freyr Stefánsson er þjálfari kvennaliðs KR. Vesturbæingar hafa áður verið með sama þjálfarann á karla- og kvennaliðinu svo er Finnur á leið í brúnna?
Herbert Arnarson, er hann að taka fram þjálfarahattinn á ný? Ef ekki ætla röndóttir að halda sig við heimamenn, hverjir standa þá til boða? Osvaldur Knudsen gerði garðinn frægan með KR hér á árum áður og Guðmundur Magnússon hefur vísast einhverja löngun til að spreyta sig. Gárungarnir hafa einnig kastað fram nöfnum á borð við Jóhannes Árnason, Íshesta-miðherjann Fannar Ólafsson og jafnvel gengið svo langt að setja Helga Magnússon í starfið sem spilandi þjálfara.
Suðvestur með sjó er Örvar Kristjánsson að aðstoða Einar Árna með Njarðvíkurliðið. Verður breyting á þeim plönum og fær Örvar símtal úr Frostaskjóli? Annar sem gæti losnað fyrir sunnan er Falur Harðarson, hann hætti með kvennalið Keflavíkur eftir síðustu leiktíð. Spekingurinn Guðjón Skúlason er einnig án liðs og Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari U18 ára landsliðs kvenna kemur til greina.
Pétur Ingvarsson er reyndur og gæti vel hugsað sér að hoppa um borð í KR bátinn og stýra KR gegn bróður sínum Jóni sem tók við ÍR fyrr í sumar.
Þökk sé brauðfótum íslensku krónunnar er ólíklegt að KR ráði erlendan þjálfara en maður veit þó aldrei. Hver tekur á endanum við skútunni verður fróðlegt að sjá og eflaust ekki langt að bíða tíðinda úr vesturbænum.