Skagamenn fóru sem nýliðar alla leið í oddaleik gegn Skallagrím um laust sæti í úrvalsdeild á síðustu leiktíð. Borgnesingar höfðu sigur í oddaleik og komust upp en lið Skagans var klárlega spútniklið síðasta tímabils. Sigurður Elvar Þórólfsson tók við liðinu í sumar en hann aðstoðaði Terrance Watson spilandi þjálfara liðsins á síðasta tímabili.
Hvernig hefur sumarið gengið?
Sumarið hefur gengið vel – ég er búinn að lækka forgjöfina aðeins.Stór hluti leikmannahópsins hóf reglubundnar séræfingar strax eftir að keppnistímabilinu lauk. Hófum formlegar æfingar 23. júlí.
Hvaða breytingar hafa orðið á hópnum?
Nánast engar breytingar á hópnum. Terrence Watson sem var leikmaður og þjálfari liðsins kemur ekki aftur en Lorenzo Lee McClelland kemur til okkar aftur – en hann lék með okkur í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð. Leikstjórnandi.
Hvernig leggst 1. deildin í þig undir 4-1 reglunni?
4-1 reglan á eftir að setja svip sinn á deildina. Veit ekki hvort þetta sé gott eða slæmt fyrir deildina en við Skagamenn erum með fullt af leikmönnum sem vilja sýna að árangurinn á síðustu leiktíð var engin tilviljun.
Hvernig metur þú möguleika þíns liðs?
Ég hef ekki hugmynd um hvaða lið verða í toppbaráttunni en Skagamenn ætla að blanda sér í baráttuna um efstu sætin. Möguleiikarnir eru til staðar en það þarf margt að ganga upp til þess að svo verði.
Skagamenn hefja leik í 1. deild þann 12. október þegar þeir heimsækja Breiðablik.
Mynd/ [email protected] – Frá úrslitaseríu ÍA og Skallagríms á síðasta tímabili.