Stelpubúðir Helenu og Hauka 2012 voru haldnar um síðustu helgi á Ásvöllum í Hafnarfirði. Um 40 stelpur frá 8 félögum voru mættar snemma laugardagsmorgun og tilbúnar í fjörið.
Við æfðum síðan frá 9-16 með góðri pásu fyrir hádegismat og smá hvíld. Síðan var ferðinni heitið í sund þar sem stelpurnar höfðu ennþá fullt af orku til að eyða. Gist var í Hraunvallaskóla þar sem stelpurnar fengu pizzur og svo hélt fjörið áfram og gaman að sjá hvað stelpunum kom vel saman. Það var vinsælt hjá yngri kynslóðinni að fá að "hanga með" þeim eldri, og voru m.a. nokkrar dömur sem fengu það verkefni að nudda þær eldri eftir erfiðan dag á æfingum.
Á sunnudagsmorgun var síðan vaknað eldsnemma til að taka saman dótið, gæða sér á morgunmat og ganga yfir á Ásvelli, og við tóku fleiri æfingar. Stelpurnar stóðu sig eins og hetjur, og þjálfararnir mjög ánægðir með hversu duglegar stelpurnar voru og hlustuðu vel. Það var mikið um hælsæri og blöðrur á tásum hjá yngri stelpunum, kannski ekki skrýtið enda margar búnar að stækka í sumar og "gömlu" skórnir orðnir svoldið litlir.
Æfingarnar enduði síðan á að allir fengu að spila 5 á 5 þar sem flottir taktar sáust. Helginni var síðan lokað með verðlaunaafhendingu þar sem þær stelpur sem unnu hinar ýmsu keppnir fengu verðlaun, grillaðar pylsur voru á borðstólnum og stelpurnar fóru sáttar heim eftir langar æfingar og skemmtilegt "sleepover".
Búðirnar tókust mjög vel og ég vil endilega þakka þeim sem hjálpuðu til við að gera búðirnar mögulegar og hlakka til að halda þær aftur að ári vonandi.
Helena Sverrisdóttir