Hlynur Bæringsson, sem átti stórleik fyrir íslenska landsliðið í dag var að vonum virkilega svekktur með úrslit leiksins. "Þetta er mjög sárt, eins sárt og það verður". Hann var líkt og flestir leikmenn liðsins algjörlega niðurbrotinn eftir leik og var á því að Ísland væri með betra lið þrátt fyrir þetta tap.
"Ég myndi helst segja sóknarfráköstin þeirra trekk í trekk. Mér finnst þetta alltaf vera saman sagan hjá okkur. Við erum að missa mikið af sóknarfráköstum og það er rosalega dýrt. Við erum mjög góðir í öðrum hluta leiksins, erum góðir í að sprengja upp varnir og erum með góðar skyttur. Þetta hefur verið veikleiki hjá okkur allan tíman og það er bara mjög sárt. Það er miklu meira pressa á okkar körfu en körfu andstæðinganna. Þegar við tökum frákast þá er það helst eftir fimm sekúndna slagsmál og barning. Það er mjög oft sem andstæðingarnir eru að taka fráköstin undir sinni körfu bara óáreittir. Það er óþolandi. Það er það sem klikkaði en ekki bara eitthvað eitt skot".
Anton Gavel fór gjörsamlega á kostum fyrir Slóvakíu og setti 35 stig í leiknum og þar af tvo risastóra þrista á lokamínútum leiksins.
"Og að sjálfsögðu Anton Gavel, númer fimm, hann gjörsamlega slátraði öllu okkar leikskipulagi alveg sama hvað við reyndum. Við reyndum að tvídekka á hann og skipta, prufuðum allt í bókinni sem við höfum æft".
Liðið gafst þó aldrei upp og það skilaði því tækifæri sem liðið fékk til þess að jafna leikinn á lokasekúndunum. Skotið geigaði en baráttan var til fyrirmyndar.
"Það er enginn tími til þess að hengja haus, maður hugsar ekkert um það. Maður verður bara að setja hausinn undir sig og halda áfram. Þetta voru gríðarlega stór skot og það eru ekki margir sem hefðu getað þetta. Hann er mjög góður leikmaður, spilar í meistaradeild evrópu og spilar á mjög háu leveli. Við vissum alveg hvað hann var góður en hann bara tók okkur".
Íslenska liðið er eftir þessa 7 leiki hingað til í sjötta og neðsta sæti riðilsins með jafn mörg stig og Slóvakía. Hlynur vildi þó meina að Íslenska liðið væri betra.
"Mér finnst við í sannleika sagt vera betri. Mér finnst þeir ekki hafa neitt framyfir okkur. Oft hefur maður lent í því, ég get alveg viðurkennt það að hinar þjóðirnar sem við erum að spila við hafa haft eitthvað fram yfir okkur. Ég sé ekki nema það sé þessi Gavel, ekki það að við eigum alveg góða leikmenn líka. Mér finnst þeir bara ekkert vera neitt frábærir".
Mynd: Þorsteinn Eyþórsson