spot_img
HomeFréttirPétur og Erik eftir leik í Iðu

Pétur og Erik eftir leik í Iðu

Karfan.is ræddi við þá Pétur Guðmundsson og Erik Olson í gær að lokinni viðureign liðanna í 1. deild karla þar sem Haukar höfðu betur í Iðu.
Pétur:Getum bætt okkur töluvert varnarlega
 
Pétur Guðmundsson, þjáfari Hauka, var líflegur á hliðarlínunni, eins og hans er jafnan háttur og svaraði glaðbeittur nokkrum léttum spurningum eftir leik. Hann hlýtur að hafa verið sáttur með þennan þægilega sigur?
 
„Já, já, ég er mjög sáttur með að vinna leikinn. Ég er ekki alveg nógu ánægður með seinni hálfleikinn en auðvitað sáttur að vinna. Strákarnir hafa verði að æfa mjög vel í sumar og við erum greinilega að uppskera vel í þessum leik með það. Auðvitað er erfitt að halda dampi þegar búið er að ná upp miklum mun, alveg sama hvar menn eru að spila, þá ósjálfrátt slaka menn á og strákarnir gerðu það núna. Þeir gerðu smá atlögu að okkur en við náðum að halda haus og sigla þessu til lands“.
 
En ertu sæmilega ánægður með stöðuna á þínu liði, svona í upphafi móts?
 
„Já, ég er það, fyrir utan að okkur vantar Helga [Einarsson] sem er meiddur. Það er bara eitthvað gamalt sem hann er að vinna úr og hann kemur inn á næstu vikum en að öðru leyti er ég mjög ánægður með allt saman“.
 
Er eitthvað í leik þinna manna í kvöld sem þú ert ósáttur með og telur að megi bæta?
 
Kannski ekki ósáttur en ég tel að við getum bætt varnarleikinn töluvert, sérstaklega miðað við spilamennkuna í seinni hálfleik. Þeir voru að skora allt of mikið af körfum út af okkar eigin klaufaskap. Án þess að taka neitt frá þeim, þá fannst mér við vera að gefa þeim þær körfur sem þeir skoruðu og ég tel að við getum bætt okkur töluvert varnarlega“.
 
Þetta er ungt lið hjá þér og auðséð að þú vilt keyra upp hraðan leik?
 
„Já, ég er með unga og glaða stráka sem hafa mjög gaman af því að hlaupa og ég ætla að leyfa þeim að gera það“.
 
Erik: Stoltur af baráttu liðsins
 
Erik Olson, hinn nýi þjáfari FSu, var alls ekki neitt mjög ósáttur með sitt lið, þrátt fyrir 18 stiga tap í fyrsta leik sínum við stjórnvölinn hér á landi. En hvernig fannst honum liðið standa sig?
 
„Ja, mér fannst þetta vera mjög tvískipt, eftir hálfleikum. Við byrjuðum ekki vel og lentum 30 stigum undir í öðrum leikhluta. En við gáfumst ekki upp, komum til baka og unnum seinni hálfleikinn með 4 stigum, þannig að við vorum í raun eins og tvö ólík lið í kvöld“.
 
En hvað með framhaldið?
 
„Þetta verður bara betra með hverjum leik. Ég er nýr þjálfari með nýjar áherslur og í liðinu eru margir nýir leikmenn þannig að það eru bjartir tímar framundan ef við höldum áfram á þessari braut. Við verðum samt að fá meira framlag frá fleiri leikmönnum í sókn og vörn en ég veit að það kemur með tímanum. Við erum heldur ekki komnir með öll okkar vopn, erum að bíða eftir okkar erlenda leikmanni. Við vorum að spila gegn mjög góðu liði en ef við höldum áfram að berjast eins og í kvöld er bara bjart framundan. Auðvitað er þetta hægara sagt en gert, þeir voru komnir 30 stigum yfir og hafa sjálfsagt slakað aðeins á, en það sýnir samt karakter hjá okkur að halda áfram og gefast ekki upp gegn þessu liði sem verður í toppbaráttu í lok tímabils. Við ætlum að vera þar líka, en eigum vissulega langt í land. Strákarnir vita það best sjálfir og ég er stoltur af þeirra baráttu. Þetta er ungt lið sem leggur sig fram og það mun skila árangri“.
 
Gylfi Þorkelsson
Fréttir
- Auglýsing -