Bæði lið voru tilbúin að keyra upp hraðann í leiknum og tempóið var hátt. Liðin skiptust á skori í hröðum sóknarleik og var jafnt á með liðunum í upphafi þegar KR mætti í Stykkishólm í Lengjubikarnum í kvöld. Brynjar var að spila vel fyrir KR í vörn og sókn en var kominn með 10 af 15 stigum KR um miðjan fyrsta fjórðung þegar staðan var 14-15 fyrir KR. Staðan var 16-20 fyrir KR eftir fyrsta hluta.
Snæfellingar náðu strax í skottið á KR og jöfnuðu 20-20. KR voru þó skrefinu á undan í öðrum hluta en Snæfellingar hittu ekki eins vel þrátt fyrir góð færi en voru þó ekki nema c.a 5 stigum á eftir, eftir að Nonni Mæju reyndi að kveikja neista með stórþrist. KR voru þolinmóðari í sóknum sínum og sterkir í vörninni og komust í 27-34. Snæfell hertu þá á tökunum síðustu mínúturnar og náðu að einbeita sér betur varnarlega og uppskáru að vera orðnir bara 1 stigi undir í hálfleik 35-36. Stigahæstu menn voru Nonni Mæju með 15 stig hjá Snæfelli og Brynjar Björnsson 13 stig hjá KR.
Seinni hálfleikur byrjaði af krafti jafn og hress en þegar staðan var 41-41 tóku KR fínt áhlaup sem gaf þeim 41-45 og svo komu tveir þristar frá Helga Má og Danero Thomas og staðan breyttist fljótt í 43-51. Erfitt var fyrir Snæfell að elta þar sem margar sóknir runnu út í sandinn gegn vörn KR. Í stöðunni 49-59 tóku Snæfellingar sér smá tak og komust nær 56-61 sem var staðan fyrir fjórða hlutann fyrir KR.
Pálmi Freyr barðist vel fyrir 4 stigum og staðan var 64-67 fyrir KR en Jay Threatt jafnaði 67-67 og KR aðeins ruglast í ríminu. Þegar um 4 mínútur voru eftir var staðan 69-67 fyrir Snæfell en Jay Threatt setti þá niður annan þrist og kom Snæfelli í 72-69 en KR voru farnir að stressast pínulítið upp í sóknum sínum og misstu boltann klaufalega og Snæfell bætti í 74-69.
Snæfell áttu mikilvæg varnarfráköst þegar KR nýtti illa sóknir sínar og Snæfell gekk á lagið og juku foystu í 78-71 og þar á meðal voru tvær troðslur frá Sveini Arnari sem kveikti í Snæfellingum. Martin Hermanns átti hörkuþrist þegar um 40 sek voru eftir og lagaði stöðuna 80-76 og Keagan Bell kom svo í næstu sókn með annan þrist 81-79. Þegar staðan var 83-80 fyrir Snæfell smellti Brynjar Þór niður einum löngum og jafnaði 83-83 þegar 5.7 sek voru eftir, ekki fyrsta skipti hjá Brynjari og ábyggilega ekki það síðasta. 83-83 varð raunin og framlengja varð leikinn.
Í framlengingunni fór Jay Threatt algjörlega fyrir Snæfelli og áttu KR menn erfitt með að stoppa strák. Snæfell tók framlenginguna 12-5 og þrátt fyrir að hafa þurft að elta mest allan leikinn komust þeir sér í betri stöðu undir lokin og sigruðu 95-88 í fyrst leik liðanna í Lengjubikarnum.
Stigaskor Snæfell: Asim McQueen 23/10 frák. Jay Threatt 21/11 frák/9 stoð/4 stolnir. Nonni Mæju 20/6 frák. Sveinn Arnar 15. Pálmi Freyr 8/7frák/7 stoðs. Ólafur Torfason 4/7 frák. Hafþór Gunnarsson 4.
Stigaskor KR: Brynjar Þór Björnsson 23/7 frák. Helgi Már Magnússon 15/10 frák. Martin Hermannsson 13. Finnur Magnússon 13. Danero Thomas 11/5 frák. Keagan Bell 6/6 frák. Ágúst Angantýsson 5/5 frák. Jón Orri Kristjánsson 2/4 frák.
Mynd úr safni/ Þorsteinn Eyþórsson
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín