spot_img
HomeFréttirKeflavík fór illa með granna sína

Keflavík fór illa með granna sína

Keflavík kom, sá og sigraði granna sína í Njarðvík í Domino’s deild kvenna í kvöld. Eftir jafnan og góðan fyrsta leikhluta sáu heimakonur aldrei til sólar og unnu Keflavíkurkonur sanngjarnan sigur, 53-86. Gestirnir voru að spila frábæran bolta þar sem vörn þeirra var sterk og samspil þeirra einnig svo þennan sigur áttu Keflvíkingar vel skilinn þar sem fimm leikmenn þeirra skoruðu yfir 10 stig. Ljóst er þó að Njarðvík þarf að fá meiri framlag frá fleiri leikmönnum ef þær ætla að ná álíkum árangri og þær náðu í fyrra.
 
Njarðvíkurkonur hefja leik af krafti og komast fljótlega yfir með góðri baráttu á báðum endum vallarins. Lele Hardy var allt í öllu á þessum tíma og skoraði fyrstu 7 stig Njarðvíkur og ætlaði sér greinilega ekkert annað en sigur í þessum grannaslag. Eftir rúmar þrjár mínútur er staðan 13-5 fyrir heimakonur og Keflavík virðast ekki tilbúnar í leikinn, því það virðist eins og þær hafi ekki alveg búist við þessari baráttu frá grönnum sínum. Þegar líður á leikhlutann virðast gestirnir vera að komast inn í leikinn smátt og smátt og komast þær yfir í fyrsta skipti þegar rúmar þrjár mínútur lifði af leiknum 15-16. Það varði ekki lengi því að Njarðvikurkonur svara því með 6-0 “run-i”. Með góðri baráttu ná Keflavíkurkonur að jafna leikinn áður en leikhlutinn rann út og því var jafnt fyrir annan leikhlutann 22-22. Hjá Njarðvík var Hardy komin með 9 stig og Salbjörg Sævarsdóttir með 5 stig. Hinum megin var Jessica Jenkins með 9 stig og Pálína Gunnlaugsdóttir með 5 stig.
 
Í öðrum leikhluta var greinilegt að Keflavík var mætt til leiks. Þær voru að spila frábæra vörn sem gjörsamlega lokaði á Njarðvík og voru með svör við öllu sem heimakonur reyndu í sókn sinni. Með vörninni kom sóknin hjá Keflavík og fljótlega voru þær komnar með 10 stiga forystu, 23-33. Þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum kom “play” leikhlutans þegar Jenkins gaf frábæra sendingu á Pálínu yfir allan völlinn, þar sem að Pálína lagði boltann í netið og fékk villu að auki. Staðan var 32-46 þegar flautað var til hálfleiks og greinilegt var að Njarðvík þyrfti að gera miklu betur ef þær ætluðu að halda í við Keflavík. Hardy var komin með 14 stig fyrir Njarðvík og Ingibjörg Vilbergsdóttir 7 stig. Hjá Keflavík var Jenkins komin með 11 stig, Sara Rún Hinriksdóttir með 10 stig og Pálína og Birna Valgarðsdóttir komnar með 8 stig.
 
Strax á fyrstu mínútu þriðja leikhlutans snýr Jenkins á sér ökklann og fer út af til að láta líta á meiðslin. Skömmu seinn snýr Ingibjörg sig illa og fer inni í klefa, eftir þetta kom hún ekkert meira við sögu í leiknum. Jenkins snýr, hins vegar, á völlinn aftur þegar um fimm mínútur voru eftir af leikhlutanum. Keflavík hreinlega átti leikhlutann þar sem að Njarðvík átti engin svör við vörn né sókn gesta sinna. Barátta Keflavíkurkvenna var svakaleg og héldu þær heimakonum til að mynda aðeins í 7 stigum í leikhlutanum og unnu hann 7-22. Staðan var því 39-68 fyrir síðasta leikhlutann og mikið yrði að gerast hjá Njarðvík ef þær ætluðu að komast nær gestum sínum. Hardy var komin með 17 stig og þær Ingibjörg og Salbjörg voru með 7 stig hvor. Hjá gestunum var Sara Rún komin með 15 stig, Jenkins og Pálína með 13 stig hvor og Birna með 12 stig.
 
Í fjórða leikhluta lét Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, Jenkins kæla á sér ökklann og ætlaði sér ekki að láta hana gera illt verra fyrir komandi átök í deildinni. Keflavíkurkonur héldu þó áfram að breikka bilið á milli sín og heimakvenna. Eftir um þrjár mínútur gerði Pálína sér lítið fyrir og skellt í tvo þribba og staðan orðin 40-74. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum meiðist Hardy á brotna fingur sínum eftir að hafa verið að berjast um boltann. Hún hleypur greinilega sárþjáð út af þar sem sjúkraþjálfari Njarðvíkur lítur á hana. Greinilegt að eitthvað mikið hafði gerst þar sem hún hefur komið aftur inn á eftir að hafa farið úr axlarlið og verið að spila undanfarið með brotinn fingur. Leikurinn var greinilega búinn þegar þetta kom við sögu og aðeins formsatriði að ljúka leiknum. Keflavík unnu að lokum sanngjarnan sigur, 53-86, og greinilegt að þær ætla að vera illviðráðanlegar í vetur.
 
Hjá Njarðvík var Hardy allt í öllu og var ekki langt frá því að næla sér í eina myndarlega þrennu. Hún endaði leikinn með 19 stig, 16 fráköst, 8 stolnum og 3 stoðsendingum. Salbjörg Sævarsdóttir skellti einnig í tvennu og endaði leikinn með 10 stig, 11 fráköst (9 í sókn), 3 stoðsendingar og 3 stolna.
 
Pálína Gunnlaugsdóttir var að spila frábærlega fyrir Keflavík, sem og allt liðið, en hún endaði með 21 stig, 4 stoðsendingar, 4 stolna og 3 fráköst. Sara Rún Hinriksdóttir, Domino´s-leikmaður fyrstu þriggja umferðanna skellti í flotta tvennu þar sem hún skilaði 15 stigum, 11 fráköstum og 3 stolnum. Ingunn Kara Kristínardóttir skilaði einnig 15 stigum fyrir Keflavík auk þess að taka 7 fráköst, gefa 3 stoðsendingar og stela 3 boltum. Þá var Jessica Jenkins með 13 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar og að lokum var Birna Valgarðsdóttir með 12 stig og 8 fráköst.
 
 
Umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -