Valur tók á móti Haukum í Vodafonehöllinni í kvöld í spennuþrungnum leik. Það dugði ekkert minna en sigurkarfa með 5.7 sek. eftir af leiktímanum til að fá stóra S-ið á skýrsluna.
Valur fór því með 70-68 sigur í kvöld í hreint æðislegum körfaboltaleik.
Byrjunarlið Vals: Alberta Auguste, Unnur Lára Ásgeirsdóttir, Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir.
Byrjunarlið Hauka: Lovísa Björt Henningsdóttir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Dagbjört Samúelsdóttir og Siarre Evans.
Haukar byrjuðu leikinn mjög ákveðnar og spiluðu góða svæðisvörn frá fyrstu mín. Þær komust í 2-6 eftir fyrstu einu og hálfu mínútuna en þá skipti Valur yfir í pressu sem kom Haukum aðeins úr jafnvægi og Valur jafnaði leikinn. Guðbjörg Sverrisdóttir meiddist snemma í leikhlutanum og þurfti að fara útaf til aðhlynningar og kom ekki aftur inná fyrr en í lok leikhlutans. Við það riðlaðist leikur Vals og gengu Haukar á lagið með 9-0 kafla næstu þrjár mínúturnar og staðan orðin 8-17 Haukum í vil.
Valur réð illa við svæðisvörn Hauka sem spiluðu af mikilli baráttu, leiddar áfram af Gunnhildi Gunnarsdóttir sem var allt í öllu í fyrsta leikhlutanum með 8 stig, 3 fráköst og stolinn bolta, og enduðu leikhlutann níu stigum undir, 16-25. Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, gjörsamlega trylltist, grýtti spjaldinu sínu á völlinn svo það brotnaði og öskraði furðulostinn á leikmennina sína hvort þær væru ekki að fylgjast með. Fylgdi hann því eftir með fleiri vel völdum orðið.
Það gerði aldeilis gæfumuninn og Valur gjörsamlega yfirspilaði Hauka næstu 7 og hálfa mínútu 20-2, á þeim kafla fóru Unnur Lára Ásgeirsdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir mikinn. Unnur með 6 stig og 3 fráköst, þar af 2 sóknarfráköst og Kristrún skoraði 7 stig. Staðan 36-27 fyrir Val.
Haukar duttu þá í gírinn og náðu að laga stöðuna í 39-36.
Þriðji leikhlutinn var lítið kaflaskiptur og einkenndist af gríðarlega baráttumikilli vörn hjá báðum liðum, Valur með stífa pressuvörn og Haukar með vel skipulagða svæðisvörn. Þurftu leikmenn hjá báðum liðum að fara útaf með minniháttar andlitsmeiðsl, Signý Hermannsdóttir hjá Val og Lovísa Björt Henningsdóttir hjá Haukum.
Skiptust liðin oft á forustu yfir leikhlutann en Valur endaði hann 56-52.
Valur var yfir allan fjórða leikhlutann. Þar stóðu Kristrún Sigurjónsdóttir og Alberta Auguste upp úr. Þó voru Haukar aldrei langt undan og spennustigið mjög hátt í höllinni. Sérstaklega þegar Margrét Rósa Hálfdanardóttir skoraði rosalega þriggja stiga korfu með 58 sek. eftir af leiknum og jafnaði leikinn 68-68. Virtist meðbyrinn þá vera með Haukum og voru þær óheppnar að komast ekki yfir með 15 sek. eftir af leiknum.
Valur sótti og illa gekk að finna skot en eftir augnabliks einbeitingarskort í vörninni hjá Haukum sér Alberta Auguste hvar Unnur Lára Ásgeirsdóttir stendur ein og óvölduð undir körfunni og er ekki lengi að senda á hana og Unnur lét þetta tækifæri sér ekki úr greipum renna og kemur Val yfir 70-68 með 5.7 sek eftir af klukkunni við mikinn fögnuð áhorfenda. Haukar tóku leikhlé til að skipuleggja seinustu sóknina en náðu ekki góðu skoti.
Valur því sigurvegari kvöldsins í ansi skemmtilegum leik.
Stigahæstar hjá Val: Kristrún Sigurjónsdóttir 22 stig/4 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 15 stig/9 fráköst (þar af 5 sóknarfráköst), Alberta Auguste 10 stig/12 fráköst/7 stoðsendingar.
Stigahæstar hjá Haukum: Margrét Rósa Hálfdanardóttir 20 stig/4 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 14 stig/7 fráköst/ 6 stoðsendingar/4 stolnir boltar, Dagbjört Samúelsdóttir 14 stig/4 fráköst, Siarre Evans 12 stig/22 fráköst.
Leikmaður leiksins: Kristrún Sigurjónsdóttir og Unnur Lára Ásgeirsdóttir.
Umfjöllun: KBergmann