spot_img
HomeFréttirÍR hirti sigurinn í Ljónagryfjunni

ÍR hirti sigurinn í Ljónagryfjunni

Njarðvíkingar þurftu að lúta í gras fyrir sterkum ÍR-ingum í kvöld og það annað skiptið í vikunni þegar piltarnir úr Breiðholtinu mættu í Ljónagryfjuna. ÍR skoraði 82 stig gegn 80 stigum heimamanna og réðust úrslitin á loka sekúndu leiksins.  Bæði lið með 2 stig í deildinni eftir leik kvöldsins. 
 
Njarðvíkingar hófu leik betur og höfðu undirtökin. Lítið var um varnir framan af leik og mikið var skorað á báða bóga. Strax eftir fyrsta fjórðung voru komin rúmlega 50 stig í heildina í hús. Njarðvíkingar leiddu eftir fyrsta fjórðung með tveimur stigum.  Það voru svo heimamenn sem stigu á inngjöfina strax í öðrum leikhluta og voru að spila hörku vörn. Gestirnir náðu aðeins að setja niður 15 stig og staðan í hálfleik nokkuð væn fyrir heimamenn. 
 
Í seinni hálfleik héldu svo heimamenn uppteknum hætti en náðu þó aldrei að hrista ÍR-inga nægilega langt frá sér. Hlutirnir fóru svo að gerast í lokaleikhlutanum fyrir gestina þegar stórhríð hófst á körfu Njarðvíkinga. Hreggviður Magnússon (gamla brýnið) sýndi fádæma sóknartakta og setti niður hvert skotið á fætur öðru og kom liði sínu yfir á ögurstundu. Ekki nóg með það heldur virtist allur vindur úr Njarðvíkingum á meðan stemmningin var hjá þeim hvítklæddu.  En Njarðvíkingar sýndu karakter og komu sér aftur inn í leikinn þegar þeir hentu inn svæðisvörn sem hægði vel á sóknarleik ÍR. 
 
Það var svo á loka sekúndum leiksins sem taflið réðst. 1 sekúnda til leiksloka, ÍR höfðu komið sér í 2 stiga forskot og Njarðvíkingar með innkast á miðjunni. Boltinn barst til Ágústar Orrasonar þess mæta skotmanns en skot hans geigaði en var þó ekki fjarri lagi að detta niður. 
 
Stuðningsmenn Njarðvíkinga geta svo sem ekki kvartað yfir spennu í leikjum liðsins því allir leikir þeirra hafa nú ráðist á lokaskoti leiksins. Þeir geta hinsvegar kannski kvartað að einhverju ráði yfir úrslitunum. En að þessu sinni voru heilladísirnar með ÍR og þeir hirtu stigin sem í boði voru. 
 
Maður þessa leiks má segja að hafi verið Hreggviður Magnússon, hann setti niður 21 stig fyrir sitt lið og flest af þeim á ögurstundu eða þegar liðið þurfti mest á þeim að halda.  Jeron Belin var stigahæstur allra manna þetta kvöldið 35 stig. Pilturinn er hörku körfuknattleiksmaður en á það til að detta soldið í “vælupakkann” sem skemmir ekki fyrir neinum öðrum en honum sjálfum. 
 
Fréttir
- Auglýsing -