Tómas Heiðar Tómasson var hetja Fjölnismanna í kvöld þegar hann setti niður svakalega flautukörfu sem tryggði þeim sigur gegn Tindastól eftir æsispennandi lokamínútur. Fjölnismenn fögnuðu vel og innilega í leikslokum og fékk Tómas allt liðið og gott betur í hrúgu ofaná sig eftir körfuna.
Þegar þið setjið upp kerfið, varstu einhverntíman í vafa um boltinn færi ofaní?
“Ég hafði trú á því allavega, ég var ekki hræddur við að klikka, það er það sem skipti máli. Ég fékk góð screen, þótt þetta hafi verið langt fyrir utan þá sá ég körfuna mjög vel og var alveg frekar opinn eftir þetta. Enga síður mjög sáttur með þetta skot”.
Eftir að skotið söng í netinu voru fagnaðarlæti Fjölnismanna ótrúleg, allur bekkurinn, starfsmenn og aðrir stuðningsmenn komu hlaupandi að Tómasi sem lenti undir öllum hópnum.
“Þetta var þokkalegt adrenalín sem fylgdi þessu”.
Þetta er þá kannski ástæðan fyrir því að maður spilar þessa íþrótt?
“alveg klárlega, maður getur farið mjög hátt og mjög lágt og bæði er eginlega skemmtilegt”.
Leikurinn einkenndist af baráttu og liðin voru jöfn nánast allan leikinn. Bæði lið þurftu að hafa mikið fyrir stigunum og því sigurinn þeim mun sætari.
“við áttum erfitt með þá seinast, þeir bara jörðuðu okkur í fráköstunum og gerðu það að nokkru leiti í kvöld líka en við náðum að merja þetta í lokinn”.
Mynd/ Björn Ingvars