spot_img
HomeFréttirStjörnumenn á toppnum

Stjörnumenn á toppnum

Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Þórsurum úr Þorlákshöfn í 4. umferð Domino’s deildar karla. Mættust hér silfurlið síðustu tveggja Íslandsmóta og því von á hörkuleik.
Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og ljóst að mikil barátta myndi einkenna leikinn. Fannar Helgason var drjúgur fyrir Stjörnuna í byrjun og skoraði 6 af fyrstu 8 stigum liðsins. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 19-15, og sóknartilburðir liðanna ekkert sérlega burðugir, en allt stefndi í spennandi leik.
 
Í upphafi annars leikhluta var sóknarleikur gestanna gríðarlega tilviljanakenndur og gengu Stjörnumenn á lagið. Jovan Zdravevski var heitur fyrir utan þriggja stiga línuna og kom Stjörnunni í góða forystu 29-20 um miðjan leikhlutann. Þá tóku Þórsarar hins vegar við sér og söxuðu verulega á forskot heimamanna, með flottum þristum frá Guðmundi Jónssyni minnkuðu gestirnir muninn í eitt stig í lok fyrri hálfleiks og staðan í leikhléi 37-36 fyrir Garðbæinga.
 
Liðin skiptust á að hafa forystu í þriðja leikhluta, þó ekki hafi verið mjög mikið skorað. Eftir að Guðmundur Jónsson hafði komið gestunum í 53-54 með góðum þrist tóku Stjörnumenn 9-0 áhlaup og enduðu leikhlutann með 63-54 forystu, en enn var nóg af körfubolta eftir fyrir gestina.
 
Þórsarar vilja þó líklega helst gleyma fjórða leikhluta sem fyrst því ekkert gekk hjá liðinu. Fyrstu stig gestanna komu þegar 4 mínútur og 15 sekúndur lifðu leiks og voru þeir í raun mjög heppnir að Stjörnumenn höfðu aðeins skorað þrjú stig á sama tíma. Þá fóru heimamenn hins vegar að gefa í, og kafsigldu Þórsara undir lok leiksins. Vörn Stjörnunnar var loftþétt og skoruðu gestirnir einungis 8 stig í fjórða leikhluta. Fór því svo að Stjarnan sigraði Þór með 77 stigum gegn 62, í leik sem verður seint talinn dæmi um blússandi sóknarleik.
 
Stjörnumenn virðast hafa lagað varnarleik sinn verulega síðan þeir töpuðu fyrir Snæfelli fyrir viku. Mikil ákefð var í varnarleik heimamanna sem sést vel á að Þórsarar skora minna en 10 stig í lokaleikhlutanum. Sóknartilburðir liðsins voru hins vegar oft og tíðum slakir, en ljóst er að ef Stjörnumenn ná að flétta vörn og sókn saman er liðið virkilega öflugt.
 
Stigahæstur Stjörnumanna var fyrirliðinn Fannar Freyr Helgason, en hann skoraði 17 stig, auk þess að taka 13 fráköst. Brian Mills bætti við 15 stigum, 12 fráköstum og 4 vörðum skotum og Jovan Zdravevski setti einnig 15 stig. Hjá gestunum var Guðmundur Jónsson stigahæstur með 16 stig, en ljóst er að Þórsarar þurfa mun hærra framlag frá lykilmönnum til að vinna lið á borð við Stjörnuna.
 
 

Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -