Snæfell skellti KFÍ í Lengjubikar karla í gær. Sigurinn var Hólmurum ekki að kostnaðarlausu þar sem Pálmi Freyr Sigurgeirsson varð frá að víkja sökum meiðsla og þá fékk Stefán Karel Torfason heilahristing.
Flytja varð Stefán Karel með sjúkrabifreið á Akranes þar sem staðfest var að hann væri í lagi en um þungt höfuðhögg og slæman heilahristing hefði verið að ræða. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells sagði í snörpu spjalli við Karfan.is að Stefán þyrfti að taka því rólega næstu daga og vera skynsamur.
Pálmi Freyr meiddist í baki í leiknum en hann hefur lengi glímt við bakmeiðsli og óttast Hólmarar að hann verði lengi frá af þessum sökum. Síðan 2010 hefur Pálmi verið góður í bakinu en í leiknum í gær fékk hann slæman hnikk á bakið og féll við það í jörðina og lék ekki meira í leiknum.