spot_img
HomeFréttirÞjálfararnir hafa fullt traust í vesturbænum

Þjálfararnir hafa fullt traust í vesturbænum

Ekki hefur blásið byrlega hjá KR það sem af er leiktíðinni. Í síðustu umferð í Domino´s deild karla var sett vafasamt met en þá horfðu KR-ingar upp á sinn versta ósigur á heimavelli frá upphafi í efstu deild karla. KR lá þá gegn Snæfell með 41 stigs mun og í gær gegn 1. deildarliði Hamars í Lengjubikarnum. Karfan.is setti sig í samband við Böðvar Guðjónsson formann KKD KR vegna slælegs gengi liðsins í upphafi vertíðar.
 
Eru breytingar í vændum hjá KR, t.d. á leikmannahópi?
,,Við erum auðvitað að skoða málið frá öllum hliðum. Það er ljóst að erlendu leikmenn liðsins hafa ekki náð sér á strik alveg eins og þeir íslensku. Þetta er liðsíþrótt þar sem allir leikmenn bera ábyrgð. Við megum ekki gleyma því! Kannski þarf liðið tvo erlenda leikmenn sem draga vagninn eins og í flestum öðrum liðum í Dominos deild karla. Það er sorglegt finnst mér!”
 
Hvernig blasa þessir tveir síðustu tapleikir við stjórn KKD KR?
,,Auðvitað fara þessir tapleikir í taugarnar á okkur enda KR ekki þekkt fyrir að tapa mörgum leikjum á undanförnum árum. Við höfum áður lent í mótbyr og oftar en ekki leyst úr erfiðum málum þannig að menn anda með nefinu í vesturbænum og skoða framhaldið.”
 
Njóta þjálfarar liðsins fulls trausts stjórnarinnar?
,,Þjálfarar liðsins njóta fyllsta trausts og mun stjórnin aðstoða þá í hvívetna eins og vera ber.”
  
Fréttir
- Auglýsing -