Í nótt lauk fyrstu leikjunum í NBA deildinni þetta tímabilið. Opnunarleikurinn var viðureign Cleveland og Washington þar sem Cleveland fór með 94-84 sigur af hólmi. Trevor Ariza opnaði stigareikning deildarinnar þegar hann gerði þrist í upphafi viðureignar Cleveland og Washington. Fyrir leik Miami og Boston fengu meistarar Miami hringana sína afhenta fyrir sigur í deildinni á síðasta tímabili. Í síðasta leik næturinnar mættust svo LA Lakers og Dallas Mavericks þar sem gestirnir fóru með sigur af hólmi í Staples Center.
Cleveland 94-84 Washington
Kyrie Irving var stigahæstur hjá Cleveland með 29 stig og 6 fráköst og Anderson Varejao setti persónulegt met þegar kappinn reif niður 23 fráköst og bætti einnig við 9 stigum. Hjá Washington var Jordan Crawford stigahæstur með 11 stig.
Miami 120-107 Boston
Dwyane Wade var stigahæstur með 29 stig í liði Miami og LeBron James bætti við 26 stigum. Nýjasta stórstjarna Miami, Ray Allen, kom svo af bekknum með 19 stig. Hjá Boston var Paul Pierce með 23 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Rajon Rondo lét tvennuna ekki ósnerta með 20 stig og 13 stoðsendingar og þrennan var innan seilingar þar sem hann tók einnig 7 fráköst. LeBron James varð svo frá að hverfa í fjórða leikhluta sökum krampa og lék ekki meira með í leiknum. Þó Miami hafi náð upp 19 stiga forystu gerðu Boston fínt áhlaup en Miami stóðust það og fögnðu sigri þar sem 227 stig voru skoruð.
LA Lakers 91-99 Dallas
Darren Collison var stigahæstur í liði Dallas með 17 stig en sex leikmenn Dallas gerðu 11 stig eða meira í leiknum. Hjá Lakers var Pau Gasol með 23 stig og 13 fráköst. Dwight Howard gerði 19 stig og tók 10 fráköst í sínum fyrsta leik með Lakers og Steve Nash bætti við 7 stigum og 4 stoðsendingum. Kobe Bryant skoraði 22 stig og lék í næstum 35 mínútur án þess að taka þriggja stiga skot!
Mynd/ Hringarnir eru komnir í hús hjá Miami.