spot_img
HomeFréttirKeflavík grimmari á lokasprettinum

Keflavík grimmari á lokasprettinum

Sex í röð hjá Keflavík. Útlitið var svart á köflum hjá toppliðinu í Vodafonehöllinni í kvöld en Keflvíkingar snéru saman bökum og kláruðu Valskonur 65-69 í sveiflukenndum toppslag. Valskonur náðu 17-0 áhlaupi í lok þriðja og upphafi fjórða leikhluta en Keflvíkingar voru ekki af baki dottnir og innbyrtu sinn sjötta sigurleik í röð í Domino´s deild kvenna. Pálína Gunnlaugsdóttir var atkvæðamest í Keflavíkurliðinu með 20 stig, 5 stolna, 5 fráköst og 4 stoðsendingar.
 
Valskonur voru sprækari í upphafi leiks en eftir því sem leið á fyrsta leikhluta hresstust Keflvíkingar. Gestirnir mættu vopnaðir pressu og tókst fyrir vikið að skafa vel af skotklukku Valskvenna. Það var svo Jessica Jenkins sem átti lokaorðið í fyrsta leikhluta þegar hún kom Keflavík í 18-19 með þriggja stiga körfu.
 
Guðbjörg Sverrisdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir fóru fyrir Valskonum í fyrri hálfleik því líkast til hefur kuldinn komið Alberta Auguste í opna skjöldu í dag því hún var stigalaus allan fyrri hálfleikinn! Sara Rún Hinriksdóttir var Valskonum erfið með 10 stig í fyrri hálfleik og stöku sinnum tókst Keflavíkurvörninni að koma Val í vandræði. Jafnræði var þó með liðunum þó gestirnir væru örlitlu skrefi á undan og leiddu 33-36 í hálfleik.
 
Kristrún Sigurjónsdóttir var með 14 stig og 3 fráköst hjá Val í hálfleik og Guðbjörg Sverrisdóttir var með 6 stig og 6 fráköst. Sara Rún Hinriksdóttir var með 10 stig í Keflavíkurliðinu og 3 fráköst og Jessica Jenkins 8.
 
 
Alberta Auguste gerði sín fyrstu stig fyrir Val þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en þá var hún þegar búin að misnota sex teigskot og eitt þriggja stiga skot, afleitt kvöld hjá Auguste sem þó er mikill liðsmaður og lét til sín taka á öðrum vígstöðvum en í stigaskorinu. Stigaþurrð hennar hafði þó mikil áhrif á Valsliðið.
 
Þegar Keflvíkingar virtust ætla að síga framúr í þriðja leikhluta og staðan 37-45 tók Ágúst Björgvinsson leikhlé fyrir Val og heimakonur mættu dýrvitlausar á parketið að því loknu. Við tók 17-0 kafli sem teygði sig inn í fjórða leikhluta! Staðan var skyndilega orðin 54-45 fyrir Val og Keflvíkingar steinrunnir eftir þessa blautu tusku í andlitið.
 
Valskonur leystu pressu Keflavíkur vel á þessum tíma og náðu í síðari hálfleik að halda Söru Rún stigalausri í 14 mínútur. Keflvíkingar komust þó loks á blað á nýjan leik og náðu að jafna metin í 56-56 eftir gegnumbrot hjá Söru.
 
Mögulega var það svo reynslan eða hreinlega sjálfstraustið sem gerði svo útslagið í leiknum því síðustu fimm mínúturnar voru í einkaeigu Keflavíkur. Þegar fimm mínútur voru eftir var staðan 60-60 eftir að Unnur Lára Ásgeirsdóttir hafði smellt niður þrist fyrir Val. Næstu fjórar mínúturnar skoraði Valur ekki stig gegn Keflavík og gestirnir fóru því með 65-69 sigur af hólmi. Valskonur með 17-0 meðbyr gátu ekki fundið kraftinn í meðvindinum til að klára Keflavík en að sama skapi virklega sterk frammistaða toppliðsins sem fékk smá hárþurrkumeðferð hjá Sigurði Ingimundarsyni sem skipti sköpum.
 
Keflvíkingar hafa því unnið sex deildarleiki í röð og eru einir á toppi deildarinnar. Valskonur hinsvegar misstu Snæfell uppfyrir sig í 2. sætið með 10 stig en Valur hefur 8 stig í 3.-4. sæti eins og KR.
 
 
Myndir/ Heiða
  
Fréttir
- Auglýsing -