spot_img
HomeFréttirDramatík í Ljónagryfjunni

Dramatík í Ljónagryfjunni

Njarðvíkingar og Stjörnumenn háðu orrustu af bestu gerð í kvöld þegar liðin mættust í Ljónagryfjunni. Tvöföld framlenging varð niðurstaðan þar sem Stjörnumenn höfðu svo loks sigur. Njarðvíingar áttu möguleika á að klára dæmið að venjulegum leiktíma loknum en annað skiptið í röð kom það í hlut Ágúst Orrasonar að taka lokaskotið en það geigaði og því var framlengt. 108:115 lokastaða leiksins og Njarðvíkingar enn að bíða eftir sínum öðrum sigri í deildinni. 
 
Njarðvíkingar mættu töluvert grimmari til leiks og voru komnir í 24:9 eftir um 6 mínútna leik. Stjörnumenn virkuðu einfaldlega ekki tilbúnir í verkefnið en þegar líða tók á hálfleikinn þá virtust þeir vakna af værum blundi. Gestirnir  fór svo hægt og bítandi að saxa á það forskot sem heimamenn höfðu byggt upp og þegar yfir leið voru þeir loksins komnir yfir og leiddu í hálfleik. Rétt undir lok fyrri hálfleiks ætlaði hinsvegar allt að sjóða uppúr þegar Hjörtur Einarsson og Justin Shouse voru að berjast um knöttinn. Endaði það þannig að Justin uppskar óíþróttamannslega villu.  Jovan Zdraveski hefur ætið reynst Njarðvíkingum erfiður og hóf hann orrahríð að körfu heimamanna í fyrri hálfleik með ágætum. 
 
Í upphafi seinni hálfleiks hófu heimamenn leikinn líkt og í byrjun. Þeir settu niður tvo þrista og voru fljótlega komnir yfir í leiknum en þó aldrei með meira en nokkrum stigum. Varnarleikur var ekki aðalsmerki leiksins í þriðja leikhluta þar sem að liðin virtust einfaldlega vera að skiptast á körfum.  Þegar um mínúta var til loka leiks setti Marvin Valdimarsson niður þrist og breytti stöðunni í 84:89 og margir hafa þá ætlað að þar væri björninn unninn. En með mikilli seiglu náðu Njarðvíkingar að jafna og var það að verki Elvar Friðriksson sem átti stórleik í kvöld með 36 stig.  Njarðvíkingar gátu svo klárað leikinn en skot Ágústar Orrasonar geigaði á síðustu sekúndu leiksins. 
 
Framlengingarnar voru báðar algerlega í járnum hjá liðunum og aldrei var hægt að vita hvort liðið færi með sigur af hólmi. Það var ekki fyrr en að Kjartan Atli Kjartansson setti niður tvo þrista undir lok seinni framlengingar sem að heimamenn náðu ekki að svara fyrir að sigurinn var í höfn hjá gestunum.  Verðskuldað skal enginn segja því í svona leik á í raun enginn verðskuldað að tapa. Bæði lið lögðu mikla baráttu í leikinn og buðu uppá hina mestu skemmtun. 
 
Fréttir
- Auglýsing -