spot_img
HomeFréttirJenkins beitt í framlengingunni

Jenkins beitt í framlengingunni

Keflavík tók á móti Fjölni í Domino’s deild kvenna í kvöld og má með sanni segja að mjög kaflaskiptur leikur hafi farið fram. Heimakonur voru með yfirhöndina allan fyrri hálfleik en í seinni hálfleik kom allt annað Fjölnislið til leiks. Það dugði ekki til því Keflavík hreinlega átti framlenginguna og sigraði að lokum, 79-69. Jessica Jenkins, maður leiksins, spilaði frábærlega í kvöld þar sem hún setti niður 25 stig og 21 þeirra var úr þristum þar sem hún skellti í sjö þannig í kvöld, þrír þeirra komu í framlengingunni.
 
Fyrsti leikhlutinn var nokkuð rólegur og var fátt um fína drætti í leiknum. Það skemmtilegasta sem gerðist í leikhlutanum var þegar Fanney Lind Guðmundsdóttir setti einn fáránlegan þrist sem hún varð að henda upp þar sem skotklukkan var að renna út. Heimakonur voru með yfirhöndina nánast allan leikhlutann sem endaði 18-12 fyrir Keflavík. Pálína Gunnlaugsdóttir var komin með 8 stig og Sandra Lind Þrastardóttir 4 stig fyrir heimakonur. Hjá Fjölni voru það Bergdís Ragnarsdóttir og Brittney Jones með 4 stig hvor fyrir gestina.
 
Í byrjun annars leikhlutans var vörn Fjölnis að smella saman og náðu gular að minnka muninn í 20-17. Við það vaknaði Keflavík og setti 8 stig í röð, 28-17. Heimakonur voru mjög samstilltar í vörninni og átti Fjölnir oft í mestu vandræðum sóknarlega. Keflavík virtust alltaf vera með yfirburði á vellinum í alla staði en þegar flautað var til leikhlés voru 14 stig sem skildu liðin að, 39-25. Miðað við gang leiksins virtist það alltaf vera meiri munur. Fjölnir átti í nokkru basli sóknarlega og var það helst vegna góðrar varnar sem spilað var á Jones, en Keflavík hélt henni í 9 stigum í fyrri hálfleik og mátti þar muna um þar sem hún er búin að vera bera liðið sóknarlega. Hjá Keflavík var Pálína komin með 11 stig og Sara Rún Hinriksdóttir 10 stig.
 
Í þriðja leikhluta kom brjálað Fjölnislið til leiks sem gaf allt í leikinn. Þær fóru í svæðisvörn sem gerði heimakonum lífið leitt í leikhlutanum og keyrðu á þær sóknarlega. Keflavík hafði engin svör við varnaleik gesta sinna og á tímum virtust þær gefa boltann á Fjölni hvað eftir annað í sókn sinni. Hægt og rólega söxuðu gestirnir á forskot heimakvenna og þegar um mínúta var eftir komust þær yfir í fyrsta skipti frá fyrsta leikhlutanum eftir að þær fengu tvö “and1” í röð, 42-45. Barátta Fjölnis var frábær þessar 10 mínútur þar sem þær náðu að halda Keflavík í aðeins 5 stigum og unnu leikhlutann 5-24. Fyrir síðasta leikhlutan var staðan því 44-49 fyrir Fjölni. Hjá heimakonum var Pálína komin með 11 stig, Sara 10 stig og Jenkins 8 stig en hjá Fjölni var Jones komin með 19 stig, Bergdís 9 stig og Fanney 8 stig.
 
Fjórði leikhluti hófst með látum þar sem þrír þristar lentu í netinu á stuttum tíma, tveir hjá Keflavík og einn hjá Fjölni, 50-52. Keflavíkingar ætluðu sér ekki að sjá sinn fyrsta ósigur í deildinni og skelltu bökum saman og snéru stöðunni 50-54 í 57-54 með 7-0 “rönni”. Jones hélt þó áfram að draga gestina áfram og jafnaði leikinn aftur með “and1” þegar leikhlutinn var hálfnaður og leikurinn orðinn að eintómri spennu. Liðin skiptust á að leiða síðustu mínúturnar. Þegar um mínúta var eftir af leiknum skellir Pálína sínum þriðja þrist í leikhlutanum og kemur Keflavík yfir 63-60. Heiðrún Ríkharðsdóttir, svellköld, svaraði henni í næstu sókn og jafnaði 63-63. Heimakonur áttu síðasta skot leiksins sem rataði ekki og því þurfti að framlengja. Öll stig Keflavíkur utan af velli í leikhlutanum komu úr þriggja stiga skotum, Pálína var með þrjú stykki og Jenkins tvö. Pálína var komin með 20 stig, Jenkins 14 stig og Sara 12 stig fyrir Keflavík en hjá Fjölni var Jones komin með 26 stig.
 
Keflavík hreinlega áttu framlenginguna og unnu hana 16-6. Jenkins fór á kostum í framlengingunni og setti 11 stig af þeim 16 sem Keflavík skoraði og þar af þrjá þrista. Það var eins og Fjölnir höfðu klárað púðrið sitt í þriðja og fjórða leikhluta og átt ekkert eftir sem heimakonur nýttu sér og unnu leikinn 79-69.
 
 
 
Umfjöllun/ Rannveig Kristín Randversdóttir
  
Fréttir
- Auglýsing -