Í nótt fóru 13 leikir fram í NBA deildinni. Nýja liðið Brooklyn Nets var heilsað að hætti meistara niðri í Miami en LeBron og félagar kjöldrógu hipsterana frá Brooklyn 103-73.
LeBron James var nærri þrennunni í leiknum með 20 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar og Dwyane Wade bætti við 22 stigum og 5 stoðsendingum. Kris Humphries var svo með tvennu hjá Brooklyn, 11 stig og 11 fráköst.
Boston marði Washington 100-94 eftir framlengdan leik þar sem Kevin Garnett var stigahæstur liðsmanna Boston með 20 stig og 13 fráköst.
Utah Jazz tóku sig til og skelltu LA Lakers 95-86 þar sem Al Jefferson gerði 18 stig og tók 10 fráköst í liði Utah. Hjá Lakers var Kobe Bryant með 29 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Lakers hafa nú leikið 5 leiki á tímabilinu og aðeins unnið einn.
San Antonio Spurs komu í heimsókn í Staples Center og fengu þar 106-84 skell gegn LA Clippers. Blake Griffin gerði 22 stig og tók 10 fráköst í liði Clippers en aðeins tveir leikmenn Spurs náðu að gera 10 stig eða meira í leiknum. Þeirra atkvæðamestur var Danny Green með 12 stig.
Aðeins eitt lið er enn ósigrað í deildinni en það er New York Knicks sem unnið hefur þrjá fyrstu mótsleiki sína þetta tímabilið.
Önnur úrslit næturinnar:
Charlotte 110-117 Phoenix
Atlanta 89-86 Indiana
Milwaukee 90-108 Memphis
New Orleans 62-77 Philadelphia
Houston 87-75 Orlando
Dallas 109-104 Toronto
Sacramento 105-103 Detroit
Golden State 106-96 Cleveland