spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaFjórði sigur Tindastóls í röð kom gegn ÍR í Hellinum

Fjórði sigur Tindastóls í röð kom gegn ÍR í Hellinum

Tindastóll lagði ÍR í kvöld í Hellinum í Subway deild karla, 71-75. Eftir leikinn er Tindastóll í 6. sæti deildarinnar með 22 stig á meðan að ÍR er í 9. sætinu með 14 stig.

Fyrir leik

Tindastóll vann fyrri leik liðann í deildinni nokkuð örugglega þann 3. desember í Síkinu, 98-77.

Í bæði lið vantaði mikilvæga leikmenn í leik kvöldsins. Hjá heimamönnum í ÍR var Sigvaldi Eggertsson í borgaralegum klæðum, frá vegna meiðsla á fingur á meðan að í lið Tindastóls vantaði hinn bandaríska Javon Bess.

Gengi liðanna nokkuð ólíkt síðustu vikur. ÍR tapað seinustu tveimur leikjum og í blóðugri baráttu við KR og Breiðablik um 8. og síðasta sæti úrslitakeppninnar. Stólarnir aftur á móti unnið þrjá í röð og frekar að horfa til þess að tryggja sér heimavöll í úrslitakeppninni heldur en að hafa áhyggjur af því að vera ekki með í henni.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Skagafirði sem voru skrefinu á undan á upphafsmínútum leiksins. Munurinn þó ekki mikill á liðunum á þessum upphafsmínútum. Þegar sá fyrsti er á enda eru Stólarnir 2 stigum yfir, 17-19. Strax í upphafi annars leikhlutans ná Stólarnir að bæta enn við forystu sína. Fara mest 12 stigum á undan heimamönnum undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan 31-39.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Triston Simpson með 10 stig á meðan að fyrir Stólana voru bæði Arnar Björnsson og Taiwo Badmus með 10 stig.

Heimamenn í ÍR mæta áræðnir til leiks inn í seinni hálfleikinn. Ná með góðu áhlaupi að vinna niður forystu gestanna og komast yfir á fyrstu 5 mínútum þriðja leikhlutans, 47-46. Leikurinn er svo í járnum út leikhlutann. Staðan fyrir þann fjórða 55-55. Í lokaleikhlutanum er það svo áfram stál í stál. Taiwo Badmus áfram frábær fyrir gestina, en þegar að um mínúta er eftir kemur hann Stólunum 2 stigum yfir, 71-73. Liðin skiptast þá í tvígang á að missa boltann og ÍR fer í sókn með 28 sekúndur eftir af leiknum. Í lokasókninni nær ÍR ekki skoti og Arnar fer á vítalínuna hinumegin til þess að innsigla sigur Stólanna, 71-75

Tölfræðin lýgur ekki

Stólarnir voru mun duglegri við að koma sér á línuna í leiknum en heimamenn. Setja niður 16 af 18 af gjafalínunni á móti aðeins 7 af 9 hjá ÍR.

Atkvæðamestir

Jordan Semple var atkvæðamestur í liði heimamanna með 16 stig og 10 fráköst. Þá bætti Triston Simpson við 22 stigum.

Atkvæðamestur í liði Tindastóls var Taiwo Badmus með 27 stig, 8 fráköst og næstur honum var Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 9 stig og 10 fráköst.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst eftir VÍS bikarkeppnina, þann 24. mars heimsækir ÍR lið Grindavíkur í HS Orku Höllina á meðan að Tindastóll fær Keflavík í heimsókn í Síkið.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -