Rúnar Ingi Erlingsson söðlaði um í sumar og sagði skilið við Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni og gekk til liðs við Valsmenn í 1. deild karla. Rúnar verður með Valsmönnum í kvöld þegar liðið mætir Haukum í stórslag 1. deildar í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. Við fengum Rúnar einnig til að rýna í Domino´s leiki kvöldsins.
,,Já við Valsmenn erum vel stemmdir fyrir þessum stórleik í kvöld. Við erum búnir að byrja vel í deildinni en höfum gott svigrúm til að bæta okkur og ætlum við klárlega að spila 40 góðar mínútur í kvöld. Hafnfirðingarnir voru fyrir tímabilið rankaðir bestir í 1.deildinni enda með fínan hóp af heimastrákum ásamt nokkrum furðulegum úr þjóðflokki Grindvíkinga. Ef við náum að stöðva opnu skotin hjá þeim, pössum uppá boltann og gefum ekki færi á auðveldum körfum þá er ég samt mjög bjartsýnn á sigur enda var ég ekki sammála þessari spá fyrir tímabilið. Við erum með fullt af flottum strákum sem hafa töluverða reynslu og ég er viss um að það nýtist okkur,” sagði Rúnar en Valsmenn hafa unnið alla þrjá leiki sína í deildinni til þessa.
,,1.deildin í vetur er nokkuð skemmtileg og gaman að hafa bara einn útlending. Margir strákar sem þurfa að stíga upp í sínum liðum og taka alvöru ábyrgð sem er bara jákvætt. Ég held líka að deildin sé nokkuð sterk í ár þrátt fyrir bara einn erlendan leikmann, og hefur það sést með sigri nokkurra liða á úrvalsdeildarliðum í Lengjubikarnum. Svona fljótt á litið eru svona 3-5 lið sem virðast vera aðeins framar en hin liðin en þú þarft samt alltaf að mæta tilbúinn í alla leiki annars verður manni bara refsað,” sagði Rúnar sem hóf svo Domino´s yfirferðina á viðureign KR og UMFN sem fram fer í DHL Höllinni í kvöld.
Rúnar um leiki kvöldsins í Domino´s deild karla:
KR-UMFN: Ég býst við hörkuslag í DHL höllinni í kvöld. Eftir leik þessara liða á þessum velli 2009 þegar KR vann með 50 stigum hafa Njarðvíkingar alltaf spilað mikið uppá stoltið þegar DHL höllin er sótt heim. KR-ingar hafa verið að vakna aðeins eftir afar slæma byrjun á tímabilinu á meðan Njarðvík eiga enn eftir að ná í sinn annan deildarsigur eftir góða ferð í Þorlákshöfn í 1.umferð þannig bæði lið þurfa gríðarlega á sigri á halda í kvöld. Njarðvíkingarnir hafa litið mun betur út sem lið eftir að Jeron Belin var sendur heim og hafa flestir leikmenn liðsins verið að spila miklu betur þá sérstaklega frákastavélin Marcus Van. Hvað varðar KR þá eru þeir náttúrulega með flottan kjarna af íslenskum strákum en útlendingarnir þeirra hafa ekki verið að koma með neitt ofsalegt framlag til þessa. Ég er nú með svolítið grænt hjarta þannig ég tippa á sigur UMFN í kvöld. Spennuleikur og litli frændi, Elvar Már, setur buzzer og tekur Dóra Karls rennu fagnið (DHL 2002) og gerir allt vitlaust í stúkunni !
Stjarnan-ÍR: Ég hef lítið séð til Stjörnumanna það sem af er en þeir virðast vera með rosalega þéttan hóp. Ég hef spilað aðeins á móti ÍR-liðinu í vetur og er á því að þar sé eitt af bestu sóknarliðum deildarinnar og ef minn gamli samherji, Nemanja Sovic, hittir á stórleik þá er allt hægt. Ég ætla samt sem áður að skjóta á Stjörnusigur í kvöld og kæmi mér ekki á óvart ef það syði uppúr enda nokkrir semí nöttarar í þessum liðum.
Mynd/ [email protected] – Rúnar Ingi í Lengjubikarnum með Val gegn sínum gömlu félögum í Njarðvík.