Njarðvík og Fjölnir áttust við í dag í 8.umferð Domino´s deildar kvenna. Leikurinn var spilaður á heimavelli þeirra Njarðvíkinga. Fyrir þessa umferð voru Njarðvíkingar með 4 stig en Fjölnir með 2 stig þannig mikið í húfi fyrir bæði lið.
Fjölnir byrjuðu ögn betur og komust í 0-3 en þá kom góður kafli hjá Njarðvík þar sem þær settu 7stig í röð og voru komnar í 7-3 en eftir 5 mínutna leik voru þær grænklæddu komnar í 22-8 . Fjölnir hins vegar neituðu að gefast upp og áttu mjög gott áhlaup og náðu að minnka muninn niður í 2 stig 28-26 áður en fyrsti leikhluti kláraðist.
Njarðvík byrjuðu 2.leikhluta betur og komust í 37-30. Aftur komst Fjölnir inní leikinn með frábærum leik Brittney Jones sem fór hamförum á þessum tímapunkti og setti hverja körfu eftir annari og toppaði þær með að setja þrist ofaní tveim skrefum fyrir innan miðju sem jafnaði leikinn 39-39 og strax aftur í næstu sókn og Fjölnir komnar yfir 39-42 og mikil stemmning myndaðist hjá þeim gulklæddu.
Liðin skiptust á að setja góðar körfur og þegar bjallan gall í hálfleik var staðan 48-48, sanngjörn staða þar sem bæði lið voru að leggja allt í sölurnar. Njarðvík skoraði fyrstu körfu seinni hálfleiks en eftir hana kom bakslag og Fjölnir tók af skarið og settu næstu 10 stig og staðan orðin 50-58 og útlitið ekki gott fyrir Njarðvík.
Fjölnir náðu að halda þessu forskoti alveg fram að lokum 3. leikhluta en eftir 3.leikhluta var staðan 61-69. Fjölnir náðu mest 10 stiga forskoti í loka leikhlutanum en þá kom góður kafli hjá Njarðvík og þær minnkuðu muninn jafnt og þétt og náðu að jafna leikinn 73-73. Eftir þessa rispu þeirra grænklæddu skiptust liðin á að skora góðar körfur og allt í járnum. Þegar 15 sekundur voru eftir var brotið á Lele Hardy í stöðunni 84-85 en henni brást bogalistin í báðum skotum og Fjölnir náðu frákastinu og brotið á Jones þegar 11 sekundur voru eftir, Jones var svellköld og setti niður bæði vítin og kom sínu liði í þriggja stiga forskot. Njarðvík tók leikhlé og inn kom Sara Dögg ísköld af bekknum en henni brást ekki bogalistin og setti niður risa þrist og jafnaði leikinn 87-87 þegar 3 sekundur voru eftir.
Fjölnir náðu ekki að nýta sér þær og framlenging staðreynd. Framlengingin var æsispennadi og liðin skiptust á að hafa forskot en Lele Hardy kláraði leikinn með að setja niður tvo víti og koma Njarðvíkingum í 95-94 sem urðu lokatölur í æsispennandi leik.
Bestu menn vallarins voru þær Lele Hardy og Brittney Jones en þær voru óstöðvandi í dag. Einnig áttu Dalla og Eyrún Líf hjá Njarðvík mjög góðan dag og hjá Fjölni Bergdís Ragnars og Hrund Jóhanns.
Eins og áður kom fram var Lele Hardy með frábæran leik 44 stig – 22 fráköst – 8 stolna og 5 stoðsendingar og alls 46 í framlag. Brittney Jones var ekki með síðri leik en hún skilaði 46 stigum – 13 fráköstum og 12 stoðsendingum og alls 56 í framlag.
Mynd úr leiknum: Lele Hardy fer hamförum þessi dægrin.
Umfjöllun/ AMS