,,Ég er náttúrulega bara hundfúll með þetta tap. Við mættum einfaldlega ekki tilbúnar til leiks hér í dag og þá er manni refsað. Það er búinn að vera ágætis gangur í þessu hjá okkur uppá síðkastið og það hefur greinilega gert okkur værukær, sem er eitthvað sem við höfum engan veginn efni á,” sagði Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR við Karfan.is í dag eftir að röndóttar fengu skell í Grindavík í Domino´s deild kvenna.
,,Það er mitt hlutverk að halda stelpunum á tánum og gera liðið klárt fyrir átök. Það klikkaði í dag og ber ég ábyrgð á því. Við þurfum að gefa allt okkar í hvern einasta leik ef við ætlum okkur eitthvað í þessari deild og vonandi drögum við þann lærdóm af leiknum hér í dag,” sagði Finnur og bætti við að Grindavíkurliðið hefði ýtt KR út úr öllum sínum aðgerðum.
,,Grindavíkurliðið var bara mjög flott hérna í dag og gef ég því hellings kredit. Staða þeirra í deildinni er ekki í takt við mannskapinn sem þær hafa og þær virðist hafa dottið á góðan leikmann í Crystal Smith. Þær mættu grimmar til leiks og í stað þess að taka á móti þá leyfðum við þeim það. Þær nýttu sér það og ýttu okkur útúr öllum okkar aðgerðum. Við það sá maður sjálfstraustið hjá þeim eflast meðan við vorum í tómu tjóni. Þennan mun eftir fyrsta leikhlutann náðum við aldrei að brúa og þrátt fyrir smá lífsmark í seinni hálfleik áttum við ekkert skilið úr þessum leik.”