spot_img
HomeFréttirÆsispennandi lokasekúndur í Þórssigri

Æsispennandi lokasekúndur í Þórssigri

Það er óhætt að segja að lokamínútur í leik Þórs og ÍA í 1. deild karla í körfubolta sem fram fór í íþróttahúsinu við Síðuskóla í dag hafi verið æsispennandi. En úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndunum og það voru Þórsarar sem reyndust sterkari og höfðu þriggja stiga sigur 85-82.
 
Í upphafi leiks var fátt sem benti til þess að lokamínútur leiksins gætu orðið jafn spennandi og raun bar vitni um. Þórsliðið mætti miklu ákveðnara til leiks og höfðu góð tök á leiknum til að byrja með og leiddu með níu stigum eftir fyrsta leikhlutann 24-15. En skagamenn komu grimmir til leiks í öðru leikhlutanum og komu minnkuðu muninn jafnt og þétt og þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik hafði Þór aðeins þriggja stiga forskot 40-37.
 
Eitthvað hefur Bjarki Ármann lesið hressilega yfir sínum mönnum í leikhlé því leikmenn Þórs komu grimmir til síðari hálfleiks og hreinlega virtust ætla keyra yfir gestina og náðu snemma fjórtán stiga forskoti.  En líkt og í öðrum leikhlutanum náðu gestirnir áttum og hrukku í gang og söxuðu á forskot Þórs og þegar leikhlutanum lauk höfðu þeir minnkað muninn niður í tvö stig 59-57.
 
Mikil barátta og á köflum æðibunugangur einkenndi leik beggja liða  í fjórða og síðasta leikhlutanum. Mikil barátta gestanna gerði það að verkum að þeir náðu að jafna leikinn og komast yfir og var forskot þeirra á tíma fimm stig.  En þegar 1:18 var eftir komust gestirnir yfir með þriggja stiga körfu 80-77.  Í kjölfarið misnotuðu Þórsarar þriggja stiga skot og gestirnir brunuðu upp og skoruðu tveggja stiga körfu þegar 44 sekúndur voru til leiksloka og leiddu með þremur stigum 79-82.
 
Þór leggur upp í sókn og þegar 29,7 sekúndur voru til leiksloka var brotið á Darko sem fór á vítalínuna og setti bæði skotin niður og minnkaði muninn í eitt stig 81-82. Gestirnir missa svo boltann þegar tólf sekúnudur eru eftir af leiknum Þórsarar bruna upp og gestirnir brjóta á Darko í skoti þegar 6,1 sekúnda er til leiksloka. Darko setur bæði skotin niður og kemur Þór í 83-82. 6,1 seknúnda eftir og gestirnir taka leikhlé.  Skagamenn taka boltann inn en Sindri les þetta vel stelur boltanum og brunar upp   fer í layup en niður vildi boltinn, Sigmundur fylgir vel á eftir tekur frákastið og skorar síðustu körfu leiksins um leið og bjallan glimur. Þriggja stiga sigur Þórs í höfn 85-82. 
 
Leikur Þórs og ÍA var afar kaflaskiptur svo ekki sé nú fastara að orði kveðið.  Þór virtist á köflum ætla stinga gestina af en með mikilli baráttu náðu þeir að ávallt að koma til baka og hleypa mikilli spennu í leikinn undir lokin. Eins og leikurinn þróaðist gat sigurinn fallið hvoru megin sem var en taugar Þórsarar voru sterkari sem skilaði því að sigurinn var þeirra.
 
Með sigrinum kom Þór sér upp í 6. sæti deildarinnar með 4 stig eftir fjóra leiki en Skagamenn sitja sem fyrr á botninum ásamt Reyni S. án stiga.
 
Stigahæstu leikmenn Þórs voru: Darko Milosevic með 22 og 9 fráköst,  Halldór Örn Halldórsson 15 stig og 9 fráköst, og þeir Bjarni Konráð Árnason og Ólafur Aron Ingvason með 14 hvor.
 
Hjá gestunum var Hörður Kristján Nikulásson atkvæðamestur með 26 stig, Lorenzo Lee með 22 og Áskell Jónsson með 13.
 
 
Umfjöllun og mynd/ Páll Jóhannesson
 
Viðtöl eftir leik:
  
Fréttir
- Auglýsing -