spot_img
HomeFréttirLoks sigur hjá Njarðvíkingum

Loks sigur hjá Njarðvíkingum

Njarðvíkingar tóku gesti sína frá Ísafirði engum vettlingatökum í Ljónagryfjunni í kvöld. Fyrirfram mátti gera ráð fyrir miklum slag enda Njarðvíkingar búnir að tapa fimm deildarleikjum í röð og Ísfirðingar þremur. Bæði lið hungrað því í stig eða svo skyldi ætla en gestirnir mættu flatir til leiks og máttu á tíu mínútum hreinlega sjá á eftir sigrinum upp í hendur Njarðvíkinga þar sem allir grænir komust á blað.
 
Heimamenn í Njarðvík mættu ákveðnir til leiks og voru fljótt komnir í 9-2 eftir þrist frá Nigel Moore. Ísfirðingar áttu svo í mesta basli með Marcus Van í teignum og ekki leið á löngu uns staðan var orðin 20-6 Njarðvíkingum í vil. Sex leikmenn heimamanna skoruðu í fyrsta leikhluta og leiddu grænir að honum loknum 28-8 og gestirnir flatir og linir í sínum aðgerðum. Þeim til miskabóta skal það þó tekið fram að KFÍ er að innleiða tvo nýja leikmenn og það getur tekið sinn tíma að fínslípa sig við restina af hópnum en það má þó alltaf berjast með kjafti og klóm en það frumefni var víðsfjarri Ísfirðingum fyrstu tíu mínúturnar.
 
Gestirnir reyndu að tempra heimamenn með því að skipta á milli svæðis- og maður og mann varnar í öðrum leikhluta og smátt og smátt tókst KFÍ að ná smá takti við leikinn. Óli Ragnar Alexandersson kom sterkur inn í Njarðvíkurliðið en það bráði af honum sem öðrum grænum þegar Kristján Pétur skellti niður tveimur KFÍ þristum og minnkaði muninn í 39-24. Nokkrar langdrægar eldflaugar fengu að fjúka nokkuð andmælalaust til viðbótar en heimamenn voru þó með þægilega forystu þökk sé góðri byrjun þeirra.
 
Staðan í hálfleik var 52-32 Njarðvík í vil þar sem Friðrik Erlendur Stefánsson bauð upp á svæsna endalínutroðslu þegar hann braust í gegn og hamraði tuðrunni í hringinn. Heimaklettur fagnaði að hætti hússins enda ein af þeim myndarlegri hjá miðherjanum. Ísfirðingar áttu þó lokaorðið en þar var Momcilo á ferðinni með flautukörfu í teignum og staðan 52-32 í leikhléi.
 
Hjartað sló örar í brjósti Njarðvíkinga undir lok fyrri hálfleiks þegar Marcus Van lá óvígur í teignum og hélt um annan ökklann á sér. Hann átti þó eftir að snúa aftur inn í síðari hálfleikinn Njarðvíkingum til léttis.
 
Marcus Van var með 17 stig og Nigel Moore 10 í liði Njarðvíkinga í hálfleik en hjá KFÍ var Momcilo með 13 stig í leikhéi.
 
Friðrik Stefánsson bauð upp á myndarlega endalínutroðslu í Ljónagryfjunni í kvöld
 
Áfram var jafnræði með liðunum í þriðja leikhluta, Njarðvík vann hann 19-17 en KFÍ opnaði síðari hálfleik með 9-0 dembu. Gestirnir áttu nokkrar fínar rispur en viðhéldu þeim illa og Njarðvíkingar gerðu oft vel að pressa að KFÍ og vinna auðvelda bolta sem gáfu stig í bunkum. Staðan 71-49 að loknum þriðja leikhluta og þó annar og þriðji leikhluti hafi verið jafnir í stigaskori, 24-24 og svo 19-17, þá skyldu Njarðvíkingar gesti sína eftir í reyk í fjórða leikhluta sem þeir unnu 32-23.
 
Sem fyrr var gríðarleg vinnsla á Elvari Friðrikssyni sem lauk leik með 21 stig og 10 stoðsendingar. Hjörtur Hrafn Einarsson bætti við 19 stigum og Marcus Van lauk leik með 17 stig, öll í fyrri hálfleik. Njarðvíkingar skiluðu þessu verkefni af sér sem sterk liðsheild og komu menn grimmir af bekknum eins og endalínutroðsla Friðriks Stefánssonar bar vott um.
 
Nýji maðurinn Pitts gerði 17 stig í liði KFÍ og vissulega á hópurinn eftir að slípa sig betur saman með nýjum mönnum en það afskar ekki baráttuleysið. KFÍ kom Njarðvík oft í vandræði í leiknum en það var of lítið og of stutt. Fjórði ósigurinn í röð orðinn staðreynd og KFÍ komið í fallsæti með Tindastól.
 
 
Umfjöllun/ [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -