Hörkuleikur fór fram í Toyota-höllinni í kvöld þar sem Keflvíkingar tóku á móti Skallagrím. Fyrirfram mátti gera ráð fyrir því að Keflvíkingar myndu valta yfir gestina, þar sem þeir unnu þá síðast á sama stað með 46 stigum. Eini munurinn á liðunum var sá að síðast vantaði Pál Axel Vilbergsson sem var á parketinu í þetta sinn. Spurning er hvort að Paxel sé svona mikill x-factor fyrir þá grænklæddu úr Fjósinu því allt annað lið mætti til leiks í þetta skiptið.
Fyrsti leikhluti var frekar jafn þar sem bæði lið skiptust á að skora og voru að finna körfuna. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21-22 fyrir þá grænklæddu að vestan. Í byrjun annars leikhluta komust Skallgrímsmenn í stöðuna 21-24 en það kveikti bara í heimamönnum sem skoruðu næstu 11 stig og þeir grænklæddu sáu ekki stig næstu 5 mínúturnar. Keflvíkingar leiddu í hálfleik 48-32 og virtust þeir vera með ágætt tak á gestaliðinu.
Í byrjun þriðja leikhluta héldu Keflvíkingar áfram að setja niður góðar körfur með M.Craion í broddi fylkingar sem var eins og umferðarstjóri í teig heimamanna og reif niður hvert frákastið á fætur öðru. Heimamenn virtust ætla að fara að landa öruggum sigri í hús en þá tóku Borgnesingar leikhlé í stöðunni 60-41. Þeir komu ferskir tilbaka og náðu að saxa forskot Keflvíkinga niður í 12 stig áður en fjórði leikhluti hófst.
Þar héldu gestirnir áfram að þjarma að heimamönnum en Keflvíkingar voru samt ávallt skrefinu á undan. Minnstur var munurinn 4 stig þegar mínúta var eftir af leiknum. En reynsla Keflvíkinga skilaði þeim þessum sigri þar sem að þeir léku yfirvegaðan sóknarbolta þó að slök vörn hafi næstum því orðið þeim að falli. Þegar uppi var staðið voru það Keflvíkingar sem sigruðu leikinn með 81 stigi gegn 72.
Myndir/ vf.is
Umfjöllun/ DÖÓ