spot_img
HomeFréttirKR lagði ÍR í miklum baráttuleik

KR lagði ÍR í miklum baráttuleik

ÍR buðu röndóttum Vesturbæingum í Hertz-hellinn í Breiðholti til að spila eins og einn léttan körfuboltaleik. Liðin eru nokkuð jöfn í Domino’s-deildinni, KR-ingar í 8. sætinu með 6 stig eftir 6 leiki en heimamenn sætinu neðar, með 4 stig eftir jafn marga leiki. Breiðhyltingar að skora 82.7 stig að meðaltali og fá á sig tæp 90. KR-ingar að skora stiginu meira, 83.8 stig og fá á sig 86.8.
 
Hvítklæddir Hellisbúar byrjuðu með meiri ákafa og ákveðni en KR sem þó bætti í baráttuna. En þó svo að stigaskorun hafi ekki verið mikil í upphafi né fögur spilamennska á báða bóga þá var greinilegt að bæði lið voru mætt til að vinna þennan leik. Eftir að hafa verið í eltingaleik við heimamenn, þá voru KR-ingar skyndilega komnir með 5 stiga forskot, en leikur þeirra var þéttari og skipulagðari í sókn sem vörn upp úr miðjum fyrsta leikhlutanum. Heimamenn virtust vera að flýta sér og því meiri óreiða í sóknarleik þeirra, en KR leiddi eftir fyrsta leikhluta, 19-21.
 
Í öðrum leikhluta var meira af því sama, KR voru yfirvegaðri og þolinmóðari, en voru þó ekki að hitta nægilega vel og því ekki að auka forskot sitt neitt af ráði. ÍR söfnuðu fráköstunum en sóknarleikur þeirra einkenndist af flýtivinnu og klaufaskap. Óreiðan var allsráðandi. KR settu niður þriggja stiga skot sem heimamenn svöruðu þó ávallt um hæl og tókst því að halda gestunum innan seilingar.
 
Við taktfastan trommuslátt áhorfenda hertu heimamenn vörn sína og fóru að anda með nefinu í sóknarleik sínum. Sjö stiga forskot þeirra röndottu var að engu orðið og Eric Palm jafnaði leikinn með þrist þegar skammt lifði af fyrri hálfleik. Vindurinn var í seglum Hellisbúa og Isaac Miles kom þeim svo yfir á vítalínunni. Palm setti svo niður þrist um leið og Finnur Atli Magnússon braut á honum og fékk víti þar að auki, sem hann hitti úr. ÍR skyndilega komnir með yfirhöndina og leiddu í hálfleik, 42-37 en náðu mest 7 stiga forskoti á kafla, en heimamenn áttu síðustu mínútur hálfleiksins skuldlaust.
 
Martin Hermannson var atkvæðamestur KR-inga í hálfleik með 14 stig og 2 stoðsendingar en hjá hvítklæddu gestgjöfunum var Eric Palm stigahæstur með 11 stig og 3 stoðsendingar. Heimamenn voru einnig grimmari í fráköstunum með 21 gegn 13 KR-inga og skotnýting þeirra var einnig betri, 50% gegn tæpum 38%.
 
Í upphafi seinni hálfleiks tók Martin leikinn í sínar hendur og var maðurinn á bakvið góðan leik gestanna, jafnaði fyrir KR með þrist og kom þeim svo yfir með sniðskoti. KR-vörnin var þétt og náðu þeir nokkrum stoppum sem virtist rugla sóknarleik heimamanna eitthvað eilítið en leikurinn var orðinn fjörugur og skemmtilegri en í upphafi leiks. Heimamenn börðust og Sveinbjörn Claessen jafnaði leikinn og hvatti bæði samherja sem og áhorfendur áfram. Hiti var kominn í leikinn og það var eins gott að dómarar leiksins höfðu heilbrigð og góð lungu, því nóg var flautað.
 
Vörn heimamanna var þétt sem klettur og sóknarleikur þeirra flæðandi og líflegur. ÍR voru nú aftur komnir harðir inn í leikinn og komnir með 4 stiga forskot í lok þriðja, 57-53. Ljóst var að framundan var hörkufjórðungur þar sem stríðstrommur leiddu menn áfram í báráttunni.
 
Keagan Bell svaraði áhlaupi Breiðhyltinga með þrist strax í upphafi lokafjórðngsins en heimamönnum tókst að halda í naumt forskot sitt næstu mínúturnar. Brynjar Þór Björnsson opnaði vörn ÍR-inga og kom KR loks yfir. Hreggviður Magnúson kom sterkur inn og hélt heimamönnum á floti með stigaskorun og báráttu sinni.
 
Þegar rúmar 3 mínútur voru til leiksloka var allt í járnum og ljóst taugar leikmanna myndu hafa áhrif á úrslit leiksins, en nú voru það KR-ingar sem börðust og jöfnuðu leikinn þegar tvær og hálf mínúta voru eftir. Helgi Már kom þeim svo yfir með laglegum þrist hálfri mínútu síðar við mikinn fögnuð stuðningsmanna KR. Leikur heimamanna var ekki eins líflegur og skilvirkur en leikurinn var ennþá galopinn. Liðin skiptust á að skora og tapa boltanum næstu mínútuna og var allt að verða vitlaust á pöllunum.  Heimamenn áttu færi á að jafna leikinn þegar skammt var eftir, komu ekki upp skoti en Sveinbjörn átti loks skot á körfuna sem geigaði. Martin setti svo niður tvö pressuvíti sem innsigluðu sigur gestanna, 74-79.
 
Hörkuspennandi og skemmtilegur leikur frá upphafi til enda, en það sem einkenndi leikinn var hörð barátta beggja liða og fjörugur körfubolti, þó svo hann hafi ekki alltaf verið upp á marga fiska hvað varðar fagurfræðina. Leikmenn máttu eiga það að þeir lögðu allt í leikinn og bæði lið áttu sigurinn skilið, hvernig sem leikurinn hefði farið.  
 
Martin Hermannson var stigahæstur KR-inganna með 26 stig og 4 stoðsendingar, en missti boltann 5 sinnum. Helgi már kom næstur með 19 stig og 7 fráköst. Hjá ÍR var Eric Palm með 20 stig, 5 stoðsendingar og 5 fráköst. Nemanja Sovic var svo með 13 stig og 8  fráköst. Hreggviður  var svo með 8 fráköst ásamt 9 stigum sínum. Fráköstin voru 36 í heildina hjá ÍR gegn  34 en heimamenn vörðu aðeins eitt skot í leiknum gegn 5 KR-inga.
 
 
Mynd/ Heiða
Umfjöllun/ Arnar Freyr Böðvarsson
  
Fréttir
- Auglýsing -