KR og Hamar mættust í gærkvöld í tilgangslausum lokaleik riðlsins í Lengjubikarnum. Á sunnudagskvöld höfðu Snæfellingar tryggt sér farseðilinn og sætið í “Final-four” sem fram fer á heimavelli þeirra í Stykkishólmi og því höfðu liðin í kvöld að engu að keppa. Það fór heldur ekki framhjá þeim örfáu sem lögðu leið sína í DHL-höllina því leikurinn var arfaslakur frá upphafi til enda.
Martin Hermannsson byrjaði þó leikinn af krafti fyrir heimamenn sem héldu áfram með alíslenskt byrjunarlið. Hann skoraði fyrstu sjö stig heimamanna sem leiddu 7-2 eftir nokkrar mínútur og héldu menn í smástund að KR liðið ætlaði að sýna styrk sinn og megin, en svo fór ekki. Hamarsmenn komu sér strax inní leikinn þar sem Jerry Lewis Hollis og Örn Sigurðarson léku vörn heimamanna grátt oft og tíðum.
Jafnfræði var svo með liðunum allan leikinn en þrátt fyrir það náði hann engu flugi. KR-ingar komust mikið á vítalínuna þar sem þeir skoruðu þorra stiga sinna en á sama tíma lék Hollis lausum hala og skoraði nánast að vild. Það var því ekki fyrr en að Hollis þurfti að fara útaf eftir að hafa fengið slæmt olnbogskot í nefið sem KR-ingar náðu að byggja upp einhvern almennilegan mun. Leikurinn fjaraði svo út þar sem KR landaði 77-68 sigri.
Hjá KR-ingum bar Martin Hermansson af með 25 stig, en bræðurnir Helgi Már og Finnur Atli voru traustir. Hjá gestunum virtist Hollis geta skorað að vild og endaði með 31 og Örn Sigurðarson var öflugur með 18. Ekki skal taka mikið mark af tölfræði leiksins sem var í molum.
Þar með er Lengjubikarnum lokið hjá þessum liðum og eru þau örugglega því fegin. Við tekur baráttan í deildinni þar sem KR-ingar eru um miðja Dominos deild en Hamarsmenn á toppi 1.deilar ásamt Val, ósigraðir. Bikarkeppni KKÍ, Powerade bikarinn hefst svo aðra helgi.
Mynd úr safni/ Martin Hermannsson var bestur KR-inga í gærkvöldi.