spot_img
HomeFréttirSnæfell slapp með sigur úr Röstinni

Snæfell slapp með sigur úr Röstinni

Snæfell slapp með sigur úr Röstinni í Domino´s deild kvenna í kvöld en Hólmarar lentu þar í kröppum dansi gegn Crystal Smith og félögum í Grindavík þegar liðin mættust í Domino´s deild kvenna.
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Crystal Smith, Berglind Anna Magnúsdóttir, Helga Rut Hallgrímsdóttir, Harpa Rakel Hallgrímsdóttir og Petrúnella Skúladóttir
Byrjunarlið Snæfells: Kieraah Marlow, Hildur Björg Kjartansdóttir, Hildur Sigurðardóttir, Helga Hjördís Björgvinsdóttir og Alda Leif Jónsdóttir. 
 
Grindavík átti í erfiðleikum í fyrsta leikhluta. En þær höfðu einungis skorað 3 stig þegar 2 og hálf mínúta voru eftir af fyrsta leikhlutanum. Crystal kom með þrist til viðbótar og Helga bætti við sniðskoti. Snæfell var á góðu róli og settu þær 17 stig í leikhlutanum. Því var staðan orðin 8-17 Snæfell í vil.
 
Grindavík virtust mættar til leiks í öðrum leikhluta og byrjuðu á því að pressa fullan völl. Þær komu sterkar til baka og náðu að jafna þegar rúmar 5 mínútur voru eftir af leikhlutanum með þrist frá Crystal Smith. Grindavík komst 5 stigum yfir eftir það en leikurinn hélst jafn út leikhlutann og endaði hann 36-36. Grindavík vann leikhlutann með 9 stigum. 
 
Í hálfleik var Crystal Smith komin með 21 stig fyrir Grindavík og fyrir Snæfell var Kieraah Marlow með 12 stig ásamt 7 fráköstum og Hildur Sigurðardóttir með 10 stig.  
 
Crystal Smith opnaði þriðja leikhluta eftir að Hildur Sigurðardóttir hafði brotið á henni í þriggja stiga skoti og setti hún öll þrjú vítin ofan í. Mikil spenna var í leikhlutanum og setti Ingibjörg Yrsa niður dramatískan þrist þegar 3 og hálf mínúta voru eftir og komust Grindavík þá í stöðuna 56-48. Staðan eftir leikhlutann var 61-56 Grindavík í vil. Grindavík hafði því unnið leikhlutann með 5 stigum. 
 
Fjórði leikhluti var jafn framan af en þegar 6 mínútur voru eftir af leikhlutanum fékk þjálfari Grindavíkur Guðmundur Bragason tæknivillu. Alda steig á vítalínuna og hitti úr hvorugu vítaskotinu. Þarna var staðan orðin 72-67 Grindavík í vil. Dramatík leiksins hélt áfram og stuðningsmenn Grindavíkur voru ekki sáttir með dómgæsluna. Þegar 3 mínútur voru eftir misstu Grindavík Crystal Smith útaf með 5 villur og þá var ekki aftur snúið. Þær voru vængbrotnar án hennar. Snæfell kláruðu því leikinn og unnu með 7 stigum. Endatölur leiksins voru 76-83. 
 
Crystal Smith átti stórleik fyrir Grindavík. Hún var með 37 stig (100% nýting á vítalínunni 7/7) 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Petrúnella hrökk í gang eftir fyrsta leikhluta og var hún með 17 stig í leiknum ásamt 7 fráköstum. 
 
Fyrir Snæfell stóðu Hildur Sigurðardóttir og Kieraah Marlow upp úr. Hildur Sigurðardóttir var með 28 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Kieraah Marlow var með 22 stig, 14 fráköst ásamt því að hafa sótt 9 villur. 
 
 
Mynd úr safni/ Hildur fór mikinn með Snæfell í kvöld
Umfjöllun/ Jenný Ósk Óskarsdóttir  
Fréttir
- Auglýsing -