Haukar fengu Val í heimsókn í Schenkerhöllina í kvöld í 11. umferð Dominosdeildar kvenna. Haukar eru búnar að vera koma til baka eftir slæma byrjun á tímabilinu á meðan að Valur er í lægð þessa daganna. Seinsta viðureign þessara liða var gríðarlega jöfn og spennandi þar sem Valur skoraði sigurkörfu leiksins með 5 sek. eftir af klukkunni. Lukkudísirnar voru ekki með Val í kvöld þar sem að Haukar sigruðu þægilega 73-56 og Valur búnar að tapa fjórum leikjum í röð núna.
Byrjunarlið Hauka: Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, María Lind Sigurðardóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Siarre Evans.
Byrjunarlið Vals: Guðbjörg Sverrisdóttir, Alberta Auguste, Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir og María Björnsdóttir.
Leikurinn var spilaður á háu spennustigi frá fyrstu mínútu. Fyrri viðureign tímabilsins greinilega ofarlega í huga beggja liða. Valsstúlkur komu sér fljótt í 0-5 forustu en eftir það var bensínið að mestu búið. Liðin skiptust aðeins á að leiða og var fyrsti leikhlutinn mjög jafn en það voru þó Haukar sem leiddu 22-21 að honum loknum.
Annar leikhlutinn hófst eins og sá fyrsti endaði. Jafnræði var með liðunum alveg þangað til á 16. mínútu leiksins þegar Bjarni Magnússon tók leikhlé. Eftir það smellti Margrét Rósa niður þrist sem breytti leiknum. Haukar komust yfir 32-30 og litu ekki til baka. Á þessum tíma hófst kafli hjá Val sem náði vel inn í þriðja leikhlutann þar sem þær skoruðu einungis tvo stig á níu mínútum. Haukar því með sex stiga forustu í hálfleik, 38-32.
Margrét Rósa leiddi leikinn með 15 stigum og Siarre Evans kom næst með 11 stig og 9 fráköst. Hjá Val var Guðbjörg með 9 stig.
Illa gekk hjá báðum liðum að skora í þriðja leikhlutanum og voru þau bara búin að skora sjö stig hvor þegar sex mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Meðal annars misnotaði Kristrún sniðskot eftir að hafa stolið boltanum á miðjunni. Haukastúlkur voru hægar að koma sér í vörnina og fylgdi Alberta Auguste Kristrúnu vel á eftir og var á auðum sjó til að skora þegar hún átti frákastið eftir en boltinn rúllaði af hringnum og hún náði aftur frákastinu því engin Haukastúlka var nálæg en aftur rúllaði boltinn af hringnum hjá henni og svo missti hún boltann útaf. Stuttu síðar átti Margrét Rósa glæsilega þriggja stiga sókn þar sem brotið var á henni en hún skoraði engu að síður með laglegu skoti með bakið í körfuna og setti að sjálfsögðu einnig vítið niður. Haukar leiddu með tíu stigum, 52-42, að loknum leikhlutanum.
Fjórði leikhlutinn var eign Hauka. Valur reyndi að komast aftur inn í leikinn en komst ekki nær en sjö stigum sem Haukar juku fljótlega í 15 stig. Alberta Auguste meiddist í byrjun leikhlutans of þurfti að fara útaf til aðhlynningar. Meiðslin virtust ekki alvarleg og kom fljótlega aftur inná og kláraði leikinn. Vörnin hjá Haukum lokaði algjörlega á Val og skoruðu þær ekki úr skoti seinustu sex mínútur leiksins nema af vítalínunni. Siarre Evans gerði svo endanlega út um leikinn með tveimur bannvænum þristum á stuttum tíma. Haukar unnu því nokkuð örugglega 73-56 og virðast vera komnar á fína siglingu með 3 sigra í seinustu fimm leikjum núna.
“Þetta var góður sigur hjá okkur í kvöld og mikilvægt að ná að klára þetta. Höfum verið að spila ágætlega undanfarið en aðeins vantað upp á að við værum að klára suma af þessum leikjum sem hafa verið nokkuð jafnir. En stelpurnar komu stemmdar inn í þetta í kvöld ákveðnar í að ná í sigur sem að gekk eftir.”
“Það hefur verið stígandi í okkar leik undanfarið og ég tel að ástæðan fyrir því sé voðalega einföld. Við erum með mikið breytt lið frá því í fyrra og þeir leikmenn sem voru síðast liðinn vetur eru í stærri hlutverkum í vetur. Það tekur bara sinn tíma að stilla þessa frægu strengi en við erum á réttri leið tel ég. Stelpurnar eru einbeittar í þessu og ákveðnar í að bæta sig á hverri æfingu og í hverjum leik. Það skilar sér alltaf, og á meðan þær halda því áfram þá veit ég að við eigum eftir að bæta okkur enn meira.”
Sagði Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, við Körfuna að leikslokum.
Stigahæstar hjá Haukum: Siarre Evans 23 stig/20 fráköst, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 20 stig/4 stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir 10 stig/10 fráköst/5 stoðsendingar.
Stigahæstar hjá Val: Guðbjörg Sverrisdóttir 15 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 10 stig/9 fráköst, Alberta Auguste 10 stig/8 fráköst/4 stoðsendingar.
Leikmaður leiksins: Siarre Evans