Leikur kvöldsins var einvigi liða í neðri hluta Dominós deildarinnar. ÍR og KFÍ voru jöfn að stigum fyrir leikinn með tvo sigra í deildinni og úrslitin í kvöld því mjög mikilvæg báðum liðum. KFÍ hafði tapað fjórum leikjum í röð og gengið í gegnum talsverðar mannabreytingar á síðustu vikum. ÍR hafði gengið vel á Suðurnesjum og unnið fyrr í vetur tvo sæta sigra á Grindavík annars vegar og Njarðvík hinsvegar, en máttu sætta sig við tvö töp fyrir kvöldið.
Öllum mátti því vera ljóst mikilvægið og bjuggust flestir við leikmönnum tilbúnum og vel undirbúnum fyrir baráttuna. Þannig var það vissulega með gestina sem komu virkilega vel stemmdir til leiks, voru ákveðnir í varnaraðgerðum og létu heimamenn finna rækilega fyrir sér. Enda voru skot KFÍ ómarkviss og vörnin ekki til að hrópa húrra fyrir í byrjun. Það fór því svo að KFÍ lenti strax á fyrstu mínútunum talsvert undir, eins og reyndar hefur gerst í flestum leikjum þeirra í vetur. ÍR leiddi með 7-8 stigum þangað til tæplega tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. Þá í stöðunni 6:14 virtust allt í einu allar flóðgáttir bresta og heimamenn náðu að laga stöðuna með nokkrum snjöllum körfum. Staðan var því 15:19 eftir fyrsta leikhluta og leikurinn opinn. Jafnvægi var með liðunum í öðrum leikhluta og komust KFÍ í fyrsta sinn yfir í stöðunni 29:28 þegar rúmlega fjórar mínútur voru til leikhlés. ÍR rétti sinn hlut og leiddu með fjórum stigum (36:40) í hálfleik.
Áfram var leikurinn nokkuð sveiflukenndur, þótt ÍR væru heldur farsælli. Eftir rúmlega 3 mínútna leik í þriðja fjórðungi voru þeir komnir með þægilegt forskot 40:53 og virtust hafa leikinn algjörlega í hendi sér. Virtust gestirnir mun sterkari og ekki líklegt að eitthvað ætti eftir að breytast, engu að síður náði KFÍ að halda í ÍR og hreinlega neituðu að gefast upp. Forskot ÍR fyrir lokaleikhlutann var því 6 stig (54:60). Þrátt fyrir mikla baráttu heimamanna var ÍR alltaf 2-3 skrefum á undan og fór svo að lokum að þeir lönduðu nokkuð öruggum sigri eftir að hafa leitt nær allan leikinn. Lokastaðan 86:90 fyrir ÍR.
Það fór mikil orka KFÍ, í eltingaleik við ÍR-ingana, sem spiluðu á köflum skemmtilega saman. En eins og allir vita er liðsboltinn auðveldari, ánægjulegri og það sem meira er árangursríkari. Ég ætla því að hrósa liðsheild ÍR að þessu sinni og stóðu þeir þéttir saman og uppskáru því sigurinn sem lið. Það býr mikil reynsla í leikmönnum liðsins og mun það vega þungt í vetur þegar líður á keppnina. ÍR á góðan möguleika á því að berjast um sæti í úrslitakeppninni.
Það telst líklega ekki nein snilld að benda á að KFÍ þarf að slípa sig saman í vörn og sókn. Ekki er annað hægt en að hrósa Kristjáni Pétri Andréssyni sem sýndi mikla baráttu og harðfylgi í leiknum, sem m.a. sést á því að hann endaði frákastahæstur heimamanna. Frábær og harðduglegur leikmaður og ef KFÍ hefði haft nokkra leikmenn til viðbótar sem voru jafn tilbúnir og hann í þessa baráttu hefði varla þurft að spyrja að leikslokum. Potturinn og pannan í sóknarleik KFÍ var Damier Pitts, sem er mjög hæfileikaríkur leikmaður en kannski má segja að því miður virtist stundum sem liðsfélagar hans treystu um of á að hann kláraði sóknirnar. Ekki verður hjá því komist að nefna þá athyglisverðu staðreynd að hávaxnasti leikmaður vallarins, Tyrone Bradshaw endaði leikinn með eitt varnarfrákast! Held að ef KFÍ lagar þessi atriði t.d. yrði allt annar bragur á liðinu í næsta leik.
Þróun leiks: 15:19, 21:21, 18:20 og 32:30.
KFÍ: Damier Pitts 37/8 fráköst og 7 stoð, Tyrone Bradshaw 18/1 frákast, Mirko Stefan Virijevic 15/8 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 14/11 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 2/5 fráköst, Hlynur Hreinsson 0/1 frákast, Pance Illievski 0/2 fráköst, Leó Sigurðsson 0, Óskar Kristjánsson 0, Haukur Hreinsson 0, Stefán Diego Garcia 0.
ÍR: Eric Palm 23/6 stoð, Nemanja Sovic 21/7 fráköst, Hreggviður Magnússon 11/9 fráköst, Isaac Miles 11/14 fráköst, Sveinbjörn Claessen 7, Hjalti Friðriksson 7, Vilhjálmur Jónsson 4/3 fráköst, Ellert Arnarson 2, Tómas Viggósson 0, Þorgrímur Emilsson 0.
Dómarar: Gunnar Andrésson, Halldór Jensson og Steinar Sigurðsson.
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson