Hamar fékk ÍA aftur í heimsókn eftir sigur í deildinni fyrir sléttri viku síðan og nú var ekkert gefið af heimamönnum. Eftir að staðan var jöfn 5-5 setti Hamar næstu 5 stigin og ekki var aftur snúið þrátt fyrir leikhlé hjá Skagamönnum. Heimamenn leiddu 27-13 eftir fyrsta leikhluta og með 31 stigs mun í hálfleik, 61-30, þar sem ÍA hreinlega voru andlausir og engin spenna lengur í leiknum.
Í 3. og 4. leikhluta hélst munurinn þetta 30-38 stig og allir leikmenn komu við sögu þ.m.t. Hallgrímur Brynjófs hjá heimamönnum sem sýndi að lengi logar í gömlum glæðum og setti strax 3ja stiga körfu við mikinn fögnuð félaganna og áhorfenda. Það er til tíðinda þegar þetta er það markverðasta í leiknum en í raun átti ÍA aldrei von gegn grimmri vörn Hamars.
Stigahæstir hjá ÍA voru Hörður Kristján með 19 stig og McClelland 15 en aðrir minna.
Hjá Hamri var Hollis með 30 stig, 16 fráköst, frábæra skotnýtingu og 52 framlagsstig. Halldór Gunnar var með 17 stig, Örn og Þorsteinn Már 15 hvor en aðrir minna.
Byrjunarlið Hamars var Lárus, Bjartmar, Ragnar, Hollis og Örn.
Byrjunarðið ÍA var McClelland, Áskell, Sigurður Rúnar, Ómar Örn og Hörður Kristján.
Umfjöllun/ Anton Tómasson