spot_img
HomeFréttirJón Sverrisson tryggði Fjölni sigur á lokasekúndubrotinu

Jón Sverrisson tryggði Fjölni sigur á lokasekúndubrotinu

Fjölnismenn heimsóttu ÍR í Hertz Hellinn í Breiðholti í 9. umferð Dominos-deildarinnar. Heimamenn sitja í 8. sæti deildarinnar og Fjölnir í því 10. Liðin á ansi svipuðum slóðum, en bæði hafa þau unnið 3 leiki en tapað 5. Fyrir leik var tölfræðin eilítið á bandi ÍR en Hellisbúarnir hafa verið að skora um 90 stig að meðaltali á heimavelli en Fjölnir að setja niður um 82 á útivelli. ÍR hafa unnið 2 af síðustu 5 og Fjölnir 1 af fimm síðustu leikjum sínum.
 
Fyrstu mínútur leiksins skiptust liðin á að skora og var leikur beggja liða nokkuð ærslafullur og áttaviltur. Klaufaskapur og flýtimennska varð til þess að ÍR söfnuðu villum og var Vilhjálmur Theodór Jónsson sem dæmi kominn í blússandi villuvandræði eftir tæplega 5 mínútna leik, með þrjár. Fjölnismenn náðu fljótt frumkvæðinu en ÍR héldu sér nálægt og komust yfir undir lok fyrsta leikhluta eftir að hafa tekið til í leik sínum og spilað af meiri skynsemi. Veðurguðirnir virtust á bandi heimamanna, sem komu stöðunni úr 8-13 í 28-14 á skömmum tíma. Eric Palm fór þar fyrir heimamönnum og átti 13 af 28 stigum ÍR í fyrsta leikhluta.
 
Sama var upp á teningnum í upphafi annars leikhluta, þar sem heimamenn juku forystu sína og gestirnir reyndu að halda í skottið á þeim. Fráköstin duttu flest öll í hendur hvítklæddra ÍR-inga og var mikill hraði kominn í leikinn um miðjan leikhlutann. Fjölnismenn reyndu að finna glufur í leik heimamanna, sem spiluðu góðan og þéttan varnarleik. Forskot ÍR minnkaði örlítið en þeir áttu þó að því er virtist alltaf svar við áhlaupum Fjölnis. Palm stal boltanum tvisvar í sömu sókn Fjölnis og Miles fékk svo dæmdan á sig ruðning, þegar ÍR gerðu sig líklega til að auka forskot sitt, en þess í stað komu Fjölnismenn muninum undir 10 stigin. Kröftugt áhlaup Fjölnismanna að forskoti ÍR varð til þess að skyndilega var munurinn kominn í 1 stig, eftir þrist og auðvelt sniðskot gestanna. Pressan var nú öll á heimamönnum, eftir að hafa verið betra liðið fram að þessu. Stuðningsmenn gestanna voru líflegir á pöllunum og hvötti sína menn áfram.
 
Miklir sviptivindar voru í leik liðanna í öðrum leikhluta, þar sem heimamenn virtust ætla sér að gera úti um leikinn og voru sjóðheitir en Fjölnir tók við sér svo um munaði og slökktu á ÍR. Munurinn í hálfleik var aðeins 2 stig, 47-45, fyrir ÍR sem á tímabili voru 15 stigum yfir. Það var því ljóst að heitur hárblástur var á boðstólnum Jóni Arnari, þjálfara ÍR, í hálfleik. Eric Palm var stigahæstur í liði heimamanna með 19 stig og Hreggviður Guðmundsson kom næstur með 10 stig. Hjá Grafavogsbúum var Tómas Heiðar Tómasson atkvæðamestur með 17 stig og Árni Ragnarsson með 8.
 
Arnþór Freyr Guðmundsson kom gestunum loks yfir með þrist strax í upphafi þriðja leikhluta og leikurinn orðinn hörkuspennandi. Liðin skiptust á að taka forystuna og gerðu bæði lið sig sek um að tapa boltanum og nýta illa sóknir sínar í kjölfar tapaðra bolta hjá andstæðingnum. Leikurinn fór fram og til baka þar sem bæði lið virtust bara hitta hringinn, jafnvel eingöngu spjald eða hreinlega loftið eitt. Tapaðir boltar og vannýttar sóknir einkenndu leik beggja liða um miðjan þriðja leikhluta. Fjölnismenn smám saman byggðu upp forskot en heimamenn héldu áfram að hlaupa á veggi í sóknarleik sínum, þar til Palm setti niður þriggja stiga körfu sem Paul Anthony Williams svaraði þó um hæl með þrist. Hann kom gestunum svo í 6 stiga forystu með skoti efst á teignum þegar aðeins um mínúta var eftir af leikhlutanum. Gestirnir að spila betur enda sjálfstraustið betra eftir brothætta byrjun en heimamenn virtust í einhverri hringiðu og óvissu þó svo að leikurinn væri enn galopinn.
 
Sylvester Cheston Spicer sendi Hellisbúunum tóninn strax á upphafssekúndum fjórða leikhluta með hörkutroðslu en Palm svaraði með akróbat-sniðskoti. Klaufaskapur og ráðaleysi heimamanna hélt áfram og Fjölnir hertu varnarleik sinn og nýttu sóknir sínar, ólíkt heimamönnum, en forskot þeirra var nú orðið 9 stig. Það var því greinilegt að það breytileg vindátt var í Hellinum þetta kvöldið. Baráttuandi heimamanna frá fyrri hálfleik var ekki nærri sá sami á þessum tímapunkti og Fjölnismenn hirtu hvert frákastið á fætur öðru en heimamenn ætluðu þó ekki að leggjast á magann og gefast upp. Sex stiga forysta í körfubolta er lítill lúxus en þau virkuðu sem straumhörð á fyrir ÍR að komast yfir. En allt er hægt með smá vilja og ákveðni og það sannaði Nemanja Sovic með því að leggja niður þrist fyrir ÍR og stuttu síðar kom Ellert Arnarson ÍR yfir með sniðskoti um leið og skotklukkan rann út. Hiti var kominn í húsið og áhorfendur farnir að láta í sér heyra.
 
Fjölnismenn komust aftur þremur yfir, ÍR stela boltanum og skorskrímslið Eric Palm skellti niður löðrandi sveittum þrist til að jafna leikinn 86-86 þegar 32.6 sekúndur lifðu leiks. ÍR hafði boltann þegar 25 sekúndur voru eftir en tóku skotið of snemma. Sovic hitti ekki úr þriggja stiga tilraun sinni þegar 5 sekúndur voru eftir og varð þetta til að Spicer nær frákastinu fyrir Fjölni sem er fljótur að lesa stöðu mála og sendir boltann fram völlinn á Jón Sverrisson sem rétt náði að losa sig við boltann í hraðaupphlaupi, áður en tíminn rann út og Fjölnismenn vinna á lokasekúndubroti leiksins, 86-88. Ótrúlegar lokasekúndur!
 
Hjá Fjölnismönnum var Williams stigahæstur með 23 stig, Tómas með 20 stig en aðeins 3 í seinni hálfleik og maður leiksins fyrir gestina, Jón Sverrison, með 14 stig og 13 fráköst. Fyrir heimamenn var Palm magnaður en hann skoraði helming stiga ÍR, 43. Langt var í næsta, en Sovic var með 15.
 
 
Mynd/ [email protected] – Fjölnismenn fögnuðu innilega magnaðri sigurkörfu Jóns eftir frábæra sendingu Arnþórs Freys 
Umfjöllun/ Arnar Freyr
Fréttir
- Auglýsing -