Tindastóll sótti í kvöld langsóttan deildarsigur til Njarðvíkur, en þessi var sá fyrsti sem Stólarnir hafa unnið í Domino‘s deildinni í vetur. Til að byrja með var ekki mikið af fólki í Ljónagryfjunni en áhorfendur týndust inn þegar leikurinn fór í gang.
Liðin hófu leikinn með sitthvorri þriggja stiga körfunni en Tindastóll gerði síðan gott áhlaup til að byrja leikinn, og komst í 3-12 forystu. Leikur heimamanna bættist þó til muna eftir að Einar Árni, þjálfari liðsins, tók leikhlé, og náðu þeir að minnka muninn í 4 stig þegar um ein og hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhluta. George Valentine, miðherji Tindastóls, færði áhorfendum í Ljónagryfjunni nokkrar flottar troðslur í fyrsta fjórðungi, en að honum loknum stóðu leikar 22-28 gestunum í hag.
Njarðvíkingar jöfnuðu snemma í öðrum leikhlutanum, en það gerði Nigel Moore með stökkskoti beint eftir þrist frá Ólafi Helga Jónssyni. Njarðvíkingar tóku samtals níu sóknarfráköst í öðrum leikhlutanum einum og sér, og nýttu sér það til þess að koma sér yfir og voru grænir með 6 stiga forystu í leikhléi eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik.
Elvar Már var stigahæstur hjá Njarðvík í hálfleik með 12 punkta og Nigel Moore var með 11 stig. Þá hafði Marcus Van skorað 10 stig og tekið 10 fráköst. Drew Gibson var með 13 stig og 4 stoðsendingar í hálfleik fyrir stólana og George Valentine var með 12 stig.
Marcus Van var frábær í þriðja leikhlutanum og setti þrist um miðbik leikhlutans, en hann hefur aðeins sett einn annan þrist í vetur, og hann kom gegn Keflavík b í bikarnum á dögunum. Stuttu síðar gaf Elvar Már Friðriksson síðan frábæra „alley-oop“ sendingu á Marcus og það þarf vart að fara lengra með söguna, það vita líklega flestir hvað Marcus Van gerir við boltann í háloftunum. Fylgjendur Njarðvíkur voru sáttir við tilþrifin, og Njarðvíkingar með nokkuð þægilega forystu 63-52 og virtust á spilamennskunni að sjá vera að stinga af.
En Marcus skoraði ekki eitt stig í ölum fjórða leikhlutanum og Sauðkræklingar nýttu sér það. Þeir mjökuðu sér hægt og rólega inn í leikinn í fjórða leikhlutanum og þegar rúmar fimm mínútur lifðu leiksins minnkuðu þeir muninn í 1 stig, 71-70, með þriggja stiga skoti frá Drew Gibson. Gibson var síðan aftur á ferðinni stuttu síðar þegar hann jafnaði leikinn í 78-78 þegar 1:19 voru eftir af leiknum. Hinum megin fékk Ágúst Orrason tvö víti og brenndi því fyrra en setti það seinna og gaf Njarðvík eins stigs forystu. Þá skoraði Helgi Viggósson úr sniðskoti og í næstu sókn Tindastóls setti Þröstur Leó Þrastarson þrist, sem gerði útslagið en þá var staðan orðin 79:83 og aðeins 15 sekúndur eftir af leiknum. Úrslitin lágu því fyrir, Tindastóll marði sigur á Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni. Lokatölur 80-86.
George Valentine var atkvæðamestur í liði gestanna með 21 stig og 7 fráköst, auk þess sem hann var með glimrandi skotnýtingu utan af velli, 9 af 10 eða 90%. Þá gerði Drew Gibson 18 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók 6 fráköst fyrir stólana. Elvar Már Friðriksson og Nigel Moore voru stigahæstir hjá UMFN með 18 stig hvor um sig og Marcus Van skoraði 17 stig og tók 15 fráköst.
Njarðvík 80-86 Tindastóll (22-28, 24-12, 20-18, 14-28)
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 18/5 fráköst/5 stoðsendingar, Nigel Moore 18, Marcus Van 17/15 fráköst, Ágúst Orrason 13/4 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 7, Hjörtur Hrafn Einarsson 4/6 fráköst, Óli Ragnar Alexandersson 2/4 fráköst, Friðrik E. Stefánsson 1/8 fráköst/5 stoðsendingar, Magnús Már Traustason 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Maciej Stanislav Baginski 0.
Tindastóll: George Valentine 21/7 fráköst, Drew Gibson 18/6 fráköst/11 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 16/4 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 14/10 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 7, Svavar Atli Birgisson 7, Ingvi Rafn Ingvarsson 3, Þorbergur Ólafsson 0, Sigurður Páll Stefánsson 0, Pétur Rúnar Birgisson 0, Helgi Freyr Margeirsson 0, Hreinn Gunnar Birgisson 0.
Mynd/ [email protected]
Umfjöllun/ Adam Ásgeirsson