Þórsarar tóku á móti Keflavík í toppslag í Icelandic Glacial-höllinni í Þorlákshöfn í kvöld. Leikurinn var jafn og hraður í fyrri hálfleik og ritaraborðið kvartaði undan því í hálfleik að hafa hreinlega ekki undan við að færa inn stigin. Staðan var 54-48 í hálfleik, Þórsurum í vil.
Í síðari hálfleik tóku svo Þórsarar öll völd á vellinum, byrjuðu að spila hörkufína vörn og héldu áfram að skora heilan helling. Þeir grænklæddu stungu Keflvíkinga af í þriðja leikhluta og litu síðan aldrei um öxl, heldur sigldu heim sannfærandi 26 stiga sigri og stigunum tveimur sem öllu skipta.
Leikurinn var eins og áður segir hraður og býsna skemmtilegur á að horfa. Guðmundur Jónsson, Ben Smith, David Jackson og Grétar Ingi Erlendsson fóru allir hamförum í sóknarleik Þórsara, hittu vel úr skotunum sínum og voru allir með í kringum 20 stig. Keflvíkingar voru sterkir á póstinum og skoruðu fullt af auðveldum körfum í fyrri hálfleik, en Michael Craion var háll sem áll inni í teignum og smaug ítrekað framhjá Grétari undir körfunni.
Keflvíkingar áttu í erfiðleikum í sóknarleiknum í síðari hálfleik, voru að taka slæm skot á meðan að Þórsarar sigldu fram úr þeim og þurftu ekki að hafa mikið fyrir körfunum.
Keflvíkingar eygðu smá von í upphafi fjórða leikhluta þegar þeim tókst að minnka muninn í 12 stig, en Þórsarar slökktu þá von mjög snögglega með góðum körfum og eftir það var allur vindur úr gestunum.
Barátta Þórsara var til fyrirmyndar í kvöld og fjarvera Benedikts Guðmundssonar þjálfara virtist hvetja menn til þess að þjappa sér vel saman, sem og þeir gerðu. Ben, Grétar og Guðmundur sérstaklega voru allir í einhverjum bardagaham inni á vellinum og það skilaði þessum öfluga sigri í kvöld.
Stig Þórs: Ben Smith 24/12 fráköst/8 stoðs., David Jackson 23/6 fráköst, Guðmundur Jónsson 21/5 stoðs., Grétar Ingi Erlendsson 19/9 fráköst, Darrell Flake 12/7 fráköst, Darri Hilmarsson 7, Baldur Þór Ragnarsson 2.
Stig Keflavíkur: Michael Craion 23/13 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 16, Darrel Lewis 13, Stephen McDowell 11/5 stoðs., Valur Orri Valsson 9/6 stoðs., Almar Stefán Guðbrandsson 5/5 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 2, Sigurður Guðmundsson 2, Hafliði Már Brynjarsson 1.
Mynd/ Davíð Þór
Umfjöllun/ Arnar Þór Ingólfsson