,,Ég brotnaði á olnboga þegar við vorum að keppa á móti Tennessee Lady Vols þann 4. nóvember síðastilinn,” sagði Heiðrún Kristmundsdóttir sem er í námi í Bandaríkjunum og leikur þar með háskólaliði Coker Cobras. ,,Það er erfitt að segja á þessari stundu hvort þetta tímabil sé alveg búið,” sagði Heiðrún á dögunum þegar Karfan.is hafði samband en eftir að við ræddum við hana kom í ljós við skoðun að beinið í olnboga væri byrjað að gróa fullkomnlega. Líkur eru því á að Heiðrún gæti sést í búning með Coker Cobras áður en leiktíðin er á enda.
,,Núna verð ég bara að vera þolinmóð og vona það besta og vona einnig að ég verði komin á parketið í janúar ef allt gengur vel. Það er allavega mín stefna,” sagði Heiðrún.
Af liðinu er það að frétta að Cobras lágu í síðasta leik á útivelli gegn Francis Marion skólanum 68-54. Liðið á tvo leiki eftir fyrir jól, sá fyrri gegn Mount Olive sem er í Carolinas riðlinum en seinni leikurinn þann 16. desember er gegn St. Andrews en hann er ekki innan Carolinas riðilsins.
Mynd úr safni/ Heiðrún með yngri landsliðum Íslands á NM í Svíþjóð.