spot_img
HomeFréttirBaráttan í fyrirrúmi

Baráttan í fyrirrúmi

Boðið var upp á frábæra skemmtun í Iðu sl. föstudagskvöld þegar FSu tók á móti Breiðabliki í 1. deild karla. Baráttan var í fyrirrúmi allan leikinn og hreinlega stál í stál um allan völl, pústrar og djöfulskapur – og sjúkrahúsferðir eftir leik. Hið unga og reynslulitla lið heimamanna stóðst sannarlega mikla eldraun og gleði þeirra var ósvikin við leikslok, gríðarmikilvægur 81-71 sigur í höfn og fyrir vikið skiptu liðin sætum í stöðutöflu deildarinnar.
 
Það leit þó ekki út fyrir heimasigur í upphafi leiks. Blikarnir komu grenjandi óðir bítandi í skjaldarrendur eins og Germanar forðum og tókst með því að setja FSu-liðið algerlega út af laginu. Ekki bætti úr skák að besti sóknarmaður Selfyssinga, Ari Gylfason, fékk sína aðra villu þegar 1:38 mín. voru liðnar af leiknum og kom ekki aftur við sögu fyrr en í öðrum leikhluta. Liðið glataði vopnum sínum algerlega við þetta og skoraði aðeins 7 stig í fyrsta leikhluta, gegn 19 stigum gestanna, og útlitið hreint út sagt ekki bjart. Þeir svartsýnustu af stuðningsmönnum heimaliðsins fóru að rifja upp fjórumsinnumtöfluna og komust, með skelfingarsvip, bara upp í 28!
 
En Kópavogs-Adam fékk ekki að dvelja lengi í neinni værðarparadís. FSu-strákunum tókst að safna vopnum sínum í leikhléinu og guldu Blikum rauðan belg fyrir gráan, áttu annan hlutann með húð og hári, unnu 22-10 og tókst að jafna metin fyrir te.
 
Eftir þetta var leikurinn í járnum. Barátta á báða bóga og ekkert gefið eftir. Spennan þrúgandi og einhverjir í stúkunni komnir að suðumarki. Blikar voru skrefinu á undan í þriðja hluta, náðu 6-7 stiga forskoti, sem FSu minnkaði þó jafnharðan, en staðan fyrir síðasta fjórðung var 50-55 fyrir Breiðablik.
 
Síðasti hlutinn var jafn lengst af en í stöðunni 67-71 fyrir Blika, og 3:13 mín. eftir, kom í ljós að heimamenn voru betur undir álagið búnir og tóku völdin á vellinum. Brunell og Svavar Ingi settu stóra þrista á meðan Blikum voru mislagðar hendur. FSu nýtti færin og vítin á lokakaflanum og vann síðustu rúmar 3 mín. 14-0 og leikinn þar með 81-71, eins og fyrr er getið.
 
Engin fegurðarverðlaun verða veitt eftir þennan leik, en baráttu- og karlmennskuverðlaunum útdeilt í bílförmum, á báða bóga. Bæði lið eiga hrós skilið fyrir framgöngu sína og fyrir vikið var leikurinn sá skemmtilegasti sem undirritaður hefur séð hingað til í deildinni þetta keppnistímabilið.
 
Hjá Blikum voru þeir Þorsteinn Gunnlaugsson (24 stig/13 fráköst/2 varin) og Hákon Bjarnason (7 stig/6 frk./6 stoðs.) öflugastir en Hraunar Karl (19 stig/8 fiskaðar villur) og Atli Örn (11 stig/10 fráköst) einnig góðir. Fleiri leikmenn, t.d. Rúnar Pálmarsson og Sigmar Logi Björnsson, voru öflugir, sérstaklega varnarlega, þó þess sjáist kannski ekki mikil merki á tölfræðiskýrslunni.
 
Hjá heimaliðinu náði Daði Berg Grétarsson þrefaldri tvennu (14 stig/10 frk/10 stoð) og bætti við 6 stolnum boltum! Skotnýting Daða dregur niður framlagseinkunnina (17), en ef gefin væru stig fyrir baráttu fengi Daði fullt hús, og ekki orð um það meir! Daði spilaði 40 mínútur en lét það ekki eftir sér að sýna þreytumerki. Stórbrotin frammistaða hjá þessum prúða pilti. Ari Gylfason var stigahæstur FSu-manna, en missti eiginlega alveg af heilum leikhluta vegna ótímabærra afbrota í upphafi leiks, spilaði rúmar 29 mín. að þessu sinni. Ari átti skínandi leik í strangri gæslu, nánast í einangrun allan tímann, en hann gaf sinn hlut hvergi gegn neinum og skilaði flottum tölum (21 stig/6 frk/3 stoð/ 21 framl). Matt Brunell hristi af sér slyðruorðið frá síðasta leik gegn Haukum í bikarnum og var áræðinn bæði í sókn og vörn (14 stig/8 frk/4 varin/5 stoð). Svavar skoraði 14 miklvæg stig og Hjálmur Hjálmsson kom með óborganlegan eldmóð af bekknum – endaði í saumaskap á sjúkrahúsinu eftir átökin. Þáttur Karls Ágústs Hannibalssonar var einnig mikilvægur. Hann gefur liðinu aukna dýpt í varnarleik og tíðindamaður trúir því að besta skytta Blika, Hraunar Karl, hugsi Kalla þegjandi þörfina. Þeir Daníel Kolbeinsson, Gísli Gautason og Arnþór Tryggvason komu einnig inn af bekknum með mikilvægt framlag, enda var það liðsandinn sem skóp þennan sigur.
 
Meðfylgjandi mynd eftir Hermann Snorra: Daði Berg undirbýr eina af 10 stoðsendingum
 
 
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson  
Fréttir
- Auglýsing -