Leikur dagsins var viðureign Stjörnunnar og KFÍ í 1. deild kvenna. Stjarnan hefur byrjað tímabilið vel og voru ósigraðar fyrir þennan leik í 2. sæti deildarinnar með 8 stig. KFÍ var hins vegar í 4. sæti með 4 stig. Þegar liðin mættust í fyrra vetur voru það hörku viðureignir og mátti búast við því að sömu trakteringar yrðu í boði í dag. Tvo reynslubolta vantaði í KFÍ liðið að þessu sinni, en þær Anna Soffía Sigurlaugsdóttir og Stefanía Ásmundsdóttir voru báðar forfallaðar.
KFÍ byrjaði fyrsta leikhluta mjög ákveðnar og náðu góðu forskoti 14:8 eftir hann. Það voru mjög svo ákveðnar Stjörnustúlkur sem mættu til leiks í annan leikhluta og náðu að jafna leikinn og komast yfir fyrir hálfleik. Staðan í hálfleik var því 29:30. Þótt stigin væru ekki mörg var leikurinn hraður og nokkuð skemmtilegur hingað til.
Það sama var svo í boði í seinni hálfleik og höfðu liðin reyndar skipst á um að leiða leikinn. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 42:41 fyrir KFÍ. Ekkert breyttist í raun í leiknum framan af fjórða leikhluta en síðustu mínúturnar var Stjörnuliðið komið í nokkur villu vandræði enda spiluðu þær mjög ákafa vörn eða pressuvörn nær allan leikinn. Slíkt kostar talsvert úthald en óumflýjanlega fjölgar villunum. Þetta kom fram á lokakaflanum og þurfti Guðrún Ósk Guðmundsdóttir að yfirgefa völlin með 5 villur, en hún hafði verið mjög sterk í vörn Stjörnunnar og tók drjúgt af fráköstum. KFÍ var komið með skotrétt og lauk leiknum á vítalínunni og 7 stiga munur í lokin endurspeglar ekki hversu naumur munurinn var á liðunum í raun og veru.
Í heildina var um hörkuleik að ræða og yfirleitt skildi liðin að með 1-2 körfum. Greinilegt að var að spennustigið var hátt á köflum og leikurinn einkenndist af fjölda mistaka. Bæði var leikmönnum mislagðar hendur í sniðskotum og skotnýting flestra ekki alveg nógu góð. Það breytir því ekki að bæði lið lögðu sig vel fram og svona eru sumir leikir, fæstir að minnsta kosti eru þannig að ekki megi eitthvað bæta og nú hafa leikmenn og þjálfarar úr ýmsu að moða yfir hátíðirnar. Þessi lið eiga eftir að vera í baráttunni í vor og verður gaman að fylgjast með þeim.
Ástæða er til að hrósa Evu Margréti fyrir leikinn en hún er orðinn burðarás í liði KFÍ þrátt fyrir ungan aldur. Vera Óðinsdóttir átti líka glimrandi leik með 14 fráköst og þar af 6 í sókninni. Annars fer hrósið óskipt til þessa unga liðs KFÍ sem svaraði því mjög vel að hafa misst út tvo reyndustu leikmenn sína. Pétur og KFÍ konur eru greinilega á réttri leið. Í liði Stjörnunnar var Bryndís Hanna mjög kraftmikil og gefur allt í hvern einasta leik báðum megin vallarins. Hennar framlag til leiksins er til fyrirmyndar. Einnig var Kristín Fjóla traust.
Þróun leiks: 15:19, 21:21, 18:20 og 32:30.
KFÍ: Eva Kristjánsdóttir 17/13 fráköst/4 stoð og 4 varin skot, Brittany Schoen 12/ 10 fráköst og 2 stoð, Linda Kristjánsdóttir 9, Vera Óðinsdóttir 8/14 fráköst, Sunna Sturludóttir 5/5 fráköst, Lilja Júlíusdóttir 5/4 fráköst, Rósa Överby 2, Marelle Maekalle 2, Málfríður Helgadóttir 3 fráköst og 3 stoð.
Stjarnan: Bryndís Hreinsdóttir 22/7 fráköst, Lára Flosadóttir 14, Kristín Reynisdóttir 10/9 fráköst, Andrea Pálsdóttir 5/11 fráköst, Heiðrún Hauksdóttir 2/7 fráköst, Guðrún Sveinbjörnsdóttir 3 fráköst, Guðrún Guðmdundsdóttir 10 fráköst, Klara Guðmundsdóttir 1 frákast og 2 varin skot.
Dómarar: Zvezdan Dragojlovic og Magnús Heimisson.
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Myndir: Halldór Sveinbjörnsson