spot_img
HomeFréttirTók Íslandsmeistarana 10 mínútur að kaffæra Fjölni

Tók Íslandsmeistarana 10 mínútur að kaffæra Fjölni

Grindvíkingar yfirspiluðu Fjölni í kvöld þegar liðin mættust í 10. umferð Domino´s deildar karla og jafnframt þeirri síðustu fyrir jól. Sammy Zeglinski fór á kostum í liði Grindavíkur í fyrri hálfleik og eftirleikurinn var auðveldur hjá Íslandsmeisturunum. Heimamenn í Fjölni voru á hælunum heilar 40 mínútur og supu rammt Grindavíkurseiði í kvöld.
 
Árni Ragnarsson lék ekki með Fjölni í kvöld sökum meiðsla en samkvæmt heimildum okkar er önnur hásinin að angra hann. Grindvíkingar veltu því þó ekki mikið fyrir sér og tóku leikinn föstum tökum frá fyrstu mínútu. Aaron Broussard opnaði með vörðu skoti og gestirnir tóku á rás þar sem Sammy Zeglinski opnaði stigareikninginn sem átti eftir að verða ansi myndarlegur í kvöld. 
 
Grindavík gerði 8 stig á fyrstu mínútu leiksins, þau hefðu reyndar getað orðið níu en Broussard kallinn lenti á vítalínunni og þar kann hann ekkert voðalega vel við sig. Paul Williams gerði fyrstu stig Fjölnis en heimamenn voru í algeru aukahlutverki í Dalhúsum í kvöld. Grindvíkingar með Zeglinski fremstan í flokki fóru á kostum fyrstu 10 mínúturnar og skorauðu heil 43 stig! Andlausir heimamenn létu hreinlega svívirða sig.
 
Hjalti Vilhjálmsson tók leikhlé fyrir Fjölni í stöðunni 6-19 en það sem hann sagði hefur greinilega farið inn um eitt eyra og beint út um annað því meistararnir héldu bara áfram að kvelja heimamenn. Zeglinski setti niður 6 af 7 þristum sínum í leikhlutanum og Jóhann Árni Ólafsson lokaði fyrsta leikhluta með flautukörfu í teignum fyrir gestina og staðan 19-43 eftir tíu mínútna leik. Hreint lygilegar tölur í Dalhúsum.
 
Sammy Zeglinski hélt áfram að bæta gráu ofan á svartnætti Fjölnis því hann opnaði annan leikhluta með hverju…jú, þriggja stiga körfu og staðan 19-48. Grindavík opnaði annan leikhluta 2-9 og leiddu svo 38-71 í hálfleik. Rosalegar tölur og heimamenn ekkert á þeim buxunum að gyrða sig! Almenn flatneskja og karaktersleysi Fjölnismanna gerði Grindvíkingum lífið létt í kvöld og þegar staðan er 38-71 í hálfleik þarf ekki að spyrja að leikslokum.
 
Sammy Zeglinski var með 27 stig, 4 fráköst og 9 stoðsendingar í háflelik og Jóhann Árni Ólafsson var kominn með 11 stig og 4 fráköst. Hjá Fjölni var Spicer með 13 stig og 6 fráköst í leikhléi.
 
Fjölnismenn opnuðu síðari hálfleik með þriggja stiga körfu og minnkuðu muninn í 41-71. Skaðinn var þó löngu skeður og Grindvíkingar leiddu 63-92 eftir þriðja leikhluta. Í fjórða leikhluta fengu yngri og óreyndari menn að spreyta sig hjá liðunum. Gunnar Ólafsson gerði t.d. 11 stig í liði Fjölnis og Björgvin Hafþór Ríkharðsson átti einnig líflega spretti, það má eiginlega segja að þegar byrjunarlið heimamanna, eða sem mest af því, var á bekknum þá lék Fjölnir hvað best. Varla gott veganesti inn í sunnudaginn en þá mætast Grindavík og Fjölnir á nýjan leik og þá í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins.
 
Lokatölur reyndust svo 85-122 Grindavík í vil og meistararnir unnu þar með sinn fimmta deildarleik í röð. Sammy Zeglinski lauk leik með 38 stig, 11 stoðsendingar og 6 fráköst. Zeglinski hafði nokkuð hægt um sig í síðari hálfleik enda björninn unninn og hann þurfti s.s. ekki að beita sér mikið meira en þessar fyrstu 20 mínútur leiksins. Aaron Broussard bætti við 18 stigum og 8 fráköstum og þá var einnig gaman að sjá að Hilmir Kristjánsson nýtti tímann vel og gerði 5 stig og tók 3 fráköst í Grindavíkurliðinu.
 
Hjá Fjölni var Sylvester Spicer atkvæðamestur með 23 stig og 13 fráköst og Björgvin Hafþór Ríkharðsson bætti við 13 stigum og 4 fráköstum. Fjölnismenn þurfa heldur betur að fara í naflaskoðun ef þeir ætla sér ekki að fá aðra flengingu gegn Grindavík í bikarnum á sunnudag og þeir geta huggað sig við það að þeir eru ekki líklegir til þess að bjóða upp á verstu frammistöðu vetrarins tvo leiki í röð.
 
 
Mynd/ Björn Ingvarsson
Umfjöllun/ [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -