Borgnesingar höfðu endurheimt þá Pál Axel og Hörð Helga þegar stórlið KR mætti í Fjósið í Borgarnesi í síðustu umferð Dominos deildarinnar fyrir jól. Heimamenn hafa átt erfitt uppdráttar uppá síðkastið eftir 3 sigra í fyrstu 4 leikjunum og höfðu 6 stig fyrir leik kvöldsins. KRingar hinsvegar í toppbaráttu og hafa verið að sækja í sig hið margfræga veður í síðustu leikjum.
Skallar hófu leikinn af fínum kraft og leiddu lengst af í 1.leikhluta. Vesturbæingar voru þó aldrei langt undan og munurinn aldrei meiri en 5 stig Skallagrím í hag. KRingar áttu erfitt með að finna taktinn í vörninni og sóknin var nokkuð mistæk og handahófskennd. Heimamenn leiddu að loknum leikhlutanum 25-24. Annar leikhluti var keimlíkur þeim fyrsta. Borgnesingar með yfirhöndina, en gestirnir í humátt á eftir. Helgi Már og Brynjar voru allt í öllu sóknarlega hjæa gestunum, sem einnig hófu að rífa niður sóknarfráköst í hvívetna. Þeir komust loks yfir 40-42 er tæpar 3 mínútur voru eftir af hálfeik. Medlock setti flautukörfu fyrir heimamenn og staðan 50-52 í hálfleik. Medlock var með 13 stig og Haminn 11 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar í hálfleik fyrir Skallagrím. Hjá Vesturbæingum var Brynjar með 13 stig og þeir Martin og Helgi Már með 11.
Oft hefur það verið svo í leikjum Skallagríms uppá síðkastið að byrjunin hefur lofað góðu en leikur liðsins beðið mikla hnekki í seinni hálfleik. Sú var einmitt raunin í kvöld. Gestirnir hysjuðu uppum sig brækurnar svo um munaði í seinni hálfleik á meðan heimamenn voru gjörsamlega heillum horfnir. KRingar hresstu allverulega uppá vörnina og Brynjar Björnsson var á eldi í 3.leikhluta. Martin Hermannsson var einnig funheitur, en þó ekkert í líkingu við Brynjar sem raðaði niður stigum í öllum regnbogans litum. Borgnesingar virtust sem höfuðlaus her á meðan og skyndilega var staðan orðin 61-80 og vonir um einhverskonar endurkomu af hálfu heimamanna virtist draumkennd hugsun. Skallarnir nörtuðu aðeins í hæla andstæðinganna undir lok leikhlutans og munurinn 10 stig 72-82 þegar 4. leikhluti hófst. Heimamenn virtust vera að ranka við sér í upphafi 4. leikhluta og höfðu minnkað muninn í 8 stig þegar Brynjar smellti enn einum þristinum, jók muninn í 11 stig og slökkti þann litla vonarneista er kviknað hafði í æðum kúabænda. KR sigldi nokkuð öruggum sigri í höfn þrátt fyrir heiðarlega baráttu Skallagríms undir lokin, en sú barátta kom bara of seint.
KR ingar voru lengi í gang í leiknum en sæyndu styrk sinn þegar leið á leikinn. Vörn þeirra var góð í seinni hálfleik og það gaf þeim sjálfstraust í sókninni þar sem Brynjar datt í óhugnanlegt stuð. Hann var langbesti maður vallarins í kvöld og endaði með 35 stig, 6/11 í þristum. Martin Hermannson sannaði að hann er einn efnilegasti leikmaður landsins og sallaði 20 stigum. Helgi var sérstaklega öflugur í fyrri hálfleik.
Leikur Skallagríms var að mörgu leiti endurtekið efni frá síðustu leikjum. Lofa góðu í fyrri hálfleik, en hrynja svo í upphafi þess seinni. Sóknarleikurinn var of einhæfur og mikið um slæm mistök bæði sóknar og varnarlega. Að venju voru þeir Haminn, Medlock og Páll Axel öflugastir hvað varðar stigaskorið. Davíð Ásgeirsson átti fínan leik og hefur vaxið mikið sem leikmaður í vetur. Hann hefði að ósekju mátt fá fleiri mínútur. Þjálfara Skallagríms bíður verðugt verkefni í jólafríinu. Að rétta við skútuna sem var á góðu stími framan af vetri en hefur svo lent í miklum mótbyr í síðustu leikjum. Meiðsli leikmanna spila þar stóran þátt, en það er nóg eftir af mótinu til að spíta í lófana og rétta skútuna af.
Umfjöllun/ Ragnar Gunnarsson